Ýmislegt úr kýrhausnum

 PB301736100_3289

     

Var að uppgötva að ég er fædd á ári drekans, samkvæmt kínversku almanaksreglunum. Þetta finnst mér alveg frábært. Áhugi minn á drekum, síðan ég kom hingað, hefur nefnilega vakið mér stórfurðu. Hversvegna ég verð að skoða alla drekana og drekamyndirnar sem ég sé svona nákvæmlega veit ég ekki, en stundum gerast skrítnir hlutir á eyrinni.

Ég er búin að gera drekataflið, sem er þarna einhversstaðarí Kínamyndunum, og hálftíma áður en ég fékk þessa vitneskju um ár drekans, fann ég lampa . Ég er löngu búin að sjá svipaða lampa, úr postulíni, alla útbróderaða í götum og rosalega fallega. Í þrjú ár er ég búin að horfa á þá og langa í, en eitthvað stoppaði mig í að kaupa. Í dag blasti lampmpinn við mér í búðarglugga, allt bróderíið var þarna ásamt, ja hvað heldur þú - jú drekamynd. Ég fór inn og keypti gripinn, því þá vissi ég eftir hverju ég hafði verið að bíða allan þennan tíma, nema hvað - drekanum. Læt fylgja með mynd að gamni.

Það er svo undarlegt hvernig hlutirnir gerast án þess að maður beinlínis geri neitt til þess. Mikið finnst mér þó gaman að fá svona einhverkonar tengingu.

Þetta minnir mig á daginn sem ég var að lakka gólfin á Sæbakka á Bíldudal í fyrsta sinn. Ég var ein fyrir vestan að klára endurbæturnar og lokahnykkurinn var sulla lakki yfir stofu, svefnherbergis og eldhússgólfin. Ég var ein, því enginn hafði áhuga á þessu Sæbakka ævintýri mínu, og meira að segja ég sjálf var töluvert hissa á hversvegna mér fannst ég verða að eignast húsið og hvað staðurinn og Arnarfjörðurinn höfðaði sterkt til mín.

Allt í einu stóð ég bara úti á skansi og mátti ekki stígainn í húsið fyrr en eftir átta tíma. Beggó málar sig ekki út í horn, bara út úr húsi. Nú, nú hvað skyldi gera við tímann, bíltúr eða hangs? Ég settist upp í Græna Graðfolann, en það var grænn Subaru sem við áttum á þeim tíma, og ók af stað, kom við á Vegamótum, keypti mér flatkökur, rækjusalat og gos, en áður en ég vissi af var ég allt í einu komin út í Selárdal, en það hafði ekkert verið meiningin. Ég fór út úr bílnum við Selárdasbæinn, kíkti pínulítið á gluggana, en hvað ég sá er leyndarmál, Bærinn var kominn í eyði, annars hefði ég varla gerst gluggagægjir á miðju sumri..

Síðan dýrkaði ég upp kirkjuhurðina, með teskeið sem var í bílnum, (uss ekki kjafta) og gekk inn í þessa gömlu fallegu kirkju. Þarna færðist yfir mig alger ró og vellíðan sem ég finn ekki oft fyrir. Ég átti fábæra hugleiðslustund þarna inni í þessari gömlu kirkju, en þegar ég gekk út aftur fannst mér einhvern veginn eins og eitthvað spennandi væri í vændum.

Því næst var það kirkjugarðurinn sem umlykur kirkjuna, ég fór að skoða leiðin og lesa á legsteinana. Allt íeinu fékk ég öll svörin sem mig vantaði. Nöfnin á legsteinunum voru svo ótrúlega mörg þau sömu og í móðurætt minni, og ein gröfin geymdi langa langafa minn. Þarna stóð ég allt í einu við rætur mínar, í litlum kirkjugarði, úti á annesi nánast, fyrir vestan þar sem ég þekkti lítið sem ekkert til . Það var undarleg en ákaflega góð tilfinning að uppgötva að þetta var Selárdalurinn sem hún amma mín minntist alltaf með svo mikilli hlýju, enda fædd þar og uppalin. Faðir hennar, langafi minn hét séra Lárus og þjónaði þessari sókn.

Þarna fékk Beggó drekalover allt í einu skýringu á þessu undarlega afli sem togaði hana vestur í Arnarfjörð. Hafandi aldrei neinn áhuga á ættfræði eða búsetu ættingja og forfeðra, hafði það bara farið gjörsamlega fram hjá henni að Selárdalurinn, þangað sem afi minn fór til að sækja sína ungu brúði hana ömmu mína, var bara nánast við skansinn á Sæbakka, en þar byrjaði ævintýrið , vegna þess að ég hafði lakkað gólfin, og þurfti að bíða í átta klukkutíma eftir að komast inn aftur. Mér finnst ég sjaldan hafa varið átta tímum svona vel.

Þetta leiddi því af sér að ég uppgötvaði td. að þeir öðlingsmenn, Bílddælingarnir Öddi og Ági eru frændur mínir, að vísu nokkuð fjarskyldir, en frændur þó, en í þeim hef ég eignast tvo af mínum bestu vinum ásamt þeirra ágætu ektafrúm. Ég verð að skella frænda þeirra og uppeldisbróður Hannesi á Vegamótum og Helgu inn í þetta, því hafa svo sannarlega reynst okkur betri en engin. Fleiri ættingjar leynast þarna lí þorpinu, bæði konur og karlar.

Hversvegna. vegna ég er að segja frá þessu veit ég ekki, en þetta rennur bara á blaðið eins og stórfljót, af sjálfu sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þú veist ekki hvers vegna þú ert að skrifa þetta, en ég veit alveg hvers vegna ég var að lesa það. Sem sagt af því að ég vissi fyrirfram að pistillinn gæti ekki verið annað en skemmtilegur.

Axel Jóhann Axelsson, 12.10.2011 kl. 20:25

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skemmtileg og dálítið dularfull frásögn, eins og drekarnir í lífi okkar. Takk Bergljót mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.10.2011 kl. 20:34

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Þakka ykkur kæru vinir fyrir örlætið!

Bergljót Gunnarsdóttir, 12.10.2011 kl. 23:29

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Er hundur, skv. þessu tímatali og finn mikla samsvörun með því svo sem.  Heimsókn í Selárdal fyrir allmörgum árum og grandskoðun á verkunum hans Samúels er enn minnistæð.  Minnistæð er líka fjaran í Bíldudal, hún var  þakin hörpuskel á stóru svæði!

Kveðja í kot

Jenný Stefanía Jensdóttir, 13.10.2011 kl. 02:07

5 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Skemmtilegt..Allt á sína skýringu..Það er bara þannig!

Knús úr Heiðarbænum.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 13.10.2011 kl. 07:51

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ég er api og það passar mér bara vel

Ásdís Sigurðardóttir, 13.10.2011 kl. 14:50

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Apaköttur apaspil,

að þú skulir vera til.

Svona grettinn grár og ljótur -

Nei Ásdís mín þarna hafa orðið herfileg mistök!  

Bergljót Gunnarsdóttir, 13.10.2011 kl. 18:51

8 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ein sú al jákvæðasta og manneskjulegasta hérna á blogginu, hún Ádís, er enginn api vildi ég sagt hafa.

Annars held ég ekki að þessi almanaksár þeirra, þyki lýsa persónueinkennum einstaklinganna sem eru fæddir undir þeim. Eina árið, sem er ár rottunnar, en þeir kalla ár músarinnar, þykir svo slæmt að fæðast á, að barneignir eru alltaf lang minnstar á því. Ég held því að þeir pæli aðallega í hvernig fólki farnast í lífinu.

Það að ár rottunnar er kallað ár músarinnar er af sama meiði og það að fólk fær ekki fréttir í Kína af neikvæðum atburðum og allt á að vera fallegt , gott og hamingjan er alltaf á næsta leiti. Ef farið væri að taka Kínverja með inn í dæmið þegar leitað er að hamingjusömustu þjóð í heimi myndi Ísland skítfalla fyrir Kína.

 Það er búið að fjarlægja allt úr almennri umgengni sem getur gert ómenntað fólk óhamingjusamt, enda er líklega eins gott að láta fólk trúa að ekkert sé að, í samfélagi sem telur einn og háfan milljarð.

Bergljót Gunnarsdóttir, 13.10.2011 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband