Smá saga úr dagl. lífinu í Kína

                                                                          065

Þetta eru húsdýr, rétt nýskriðin  úr púpunni, af þeirri teg. sem var í íbúðinni hjá mér. En fullvaxin eru þau ca 2ja til 3ja cm. löng.

Eitt er erfitt hérna í þessu landi - eins og víða annarsstaðar, en það er hversu fáar innstungur eru fyrir raftæki, jafnvel þó búið sé í lúxusíbúð á kínv. mælikvarða. Mér dettur Kalli rafvirki á Bíldudal, aftur og aftur í hug (vona bara að ég sé ekki að verða skotin í honum eða neitt svoleiðis), því innstungur vantar sárlega hér í íbúðina. Til að gera langt mál styttra, var ég búin að leiða langa framlengingarsnúru út um eldhússgluggann öðru megin og inn hinumegin til að fá rafmagn í vinnuljós við eldavélina, en þarna er vaskur á milli, undir glugganum. Engin alvöru húsmóðir vill hafa framlengingarsnúru sem þvælist fyrir á vaskbarminum og getur skapað stóhættu!

Það fór eitthvað í taugarnar á Oddi að ég skyldi gera þetta, og hann vildi endilega breyta því, sem hann og gerði. Þó miklar ástir þrífist á þessu heimili, eru þær ekki endilega alltaf ástir samlyndra hjóna – oftast þó. Þegar hann var í símanum áðan að tala við Sigrúnu systur sína, og þau í miklu kjaftastuði, ákvað ég að breyta þessu aftur svo lítið bæri á. Jú jú - ég setti snúruskrattan aftur út um gluggann og dreif fram ísskápinn til að koma henni í samband á bak við hann, en þá blasti við mér þessi líka yndislega kakkalakkafamilía sem stökk út um allt þarna í horninu bak við skápinn. Hér hefur hún Shjá mín eitthvað svikist um þrifin, svona á ekki að sjást í nýjum íbúðum og alls ekki uppi á þrettándu hæð.

Ég stökk hæð mína í fullum herkæðum, eins og Gunnar forðum, enda varð mér ekki um sel. Gunnar hefði að vísu örugglega þurft hval - til að verða ekki um. Engan hafði ég atgeirinn, enda nútímakona, svo ég greip vopn nútímamannsins – eiturúðabrúsann, og tókst að kála fjölskyldunni á svo skömmum tíma að bæði Saddam heitinn og Bush frændi hans hefðu orðið stoltir af - hefðu þeir verið í mínum sporum, síðan þreif ég þetta allt rólega með vatni og sápu.

Þegar þau systkynin höfðu talað saman drykklanga stund á ljúfum nótum og samtalinu lauk, sat mín bara sallaróleg eins og vanur fjöladmorðingi, og lét sem ekkert væri. En af því ég þarf alltaf að hafa síðasta orðið, liggur snúran núna - mína leið, þrátt fyrir baráttuna við þessa fyrrverandi familíu um plássið á bak við ísskápinn - og vei þeim sem reynir að færa hana aftur, og hananú! Þetta færir mér heim sanninn um að fólk á ekkert að vera að skipta sér af í eldhúsinu hjá snarvitlausum frekjudósum. Það gætti auðveldlega leitt til frekari fjöldamorða í skordýraheiminum. Skal tekið fram að Oddur tekur þessu öllu af sinni alkunnu - oftast rósemi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahahaha góð.  Bið að heilsa Oddi, hann setti upp leikrit sem ég lék  í hér í den á Útleið.  Rosaflott sýning. Lék gömlu konuna. Lék upp fyrir mig um nokkra áratugi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.10.2011 kl. 16:31

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Takk! Hann man vel eftir þér og kúluhúsinu þínu og biður fyrir kærar kveðjur. Mér hefur alltaf fundist hann svolítið montinn af þeirri sýningu.

Bergljót Gunnarsdóttir, 11.10.2011 kl. 16:38

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir það, þessi sýning var listaverk. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.10.2011 kl. 17:58

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Góð ertu Beggó mín, auðvitað höfum við konurnar meira vit á þessum málum en þeir.

Ég hefði gargað hálfan hnöttinn hefði ég lent í þessari kakkalakka-fjölskyldu.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.10.2011 kl. 18:12

5 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Þetta var nú bara byrjunar viðkynning mín við kakkalakka, þeir áttu sko aldeilis eftir að ylja mér undir uggum seinna. En það var ekki fyrr en ég flutti út í lítið fiskimannaþorp, en þar fékk sko aldeilis að finna fyrir því.

Bergljót Gunnarsdóttir, 12.10.2011 kl. 00:01

6 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Sæl elsku Beggó mín..alltaf svo gaman að lesa..Áfram með smjörið. Kveðja frá Gunna þínum:):)

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 12.10.2011 kl. 10:22

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 sé þig í anda hoppa í loft upp, skemmtileg að vanda.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.10.2011 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband