Kínverskt Spa

  

Í gærmorgun rigndi eins og sá sem stjórnar sturtuhausunum þarna uppi ætti lífið að leysa . Við Elín lögðum af stað út á Gulangiu, því það hafði stytt upp, regnhlífalausar eins og bjánar og himnarnir opnuðust eins og sturtukarlinum hafi fundist einum of langt síðan við fórum í bað síðast. Komumst þó ódrukknaðar heim aftur eftir stuttan stans í eynni, og alveg rennandi blautar.


Um hádegi stytti upp aftur svo við ákváðum að leggja í spaið. Þetta er ca. 20 km. fyrir utan Xiamen og tengist Tailensku lúxushóteli. Við tókum okkur leigubíl og þökkuðum okkar sæla þegar við sluppum lifandi út úr honum aftur. Bílstjórinn hafði fengið einhvern ömurlegan farþega, að ég hygg, til að kenna sér ensku og afraksturinn var very good, fuck og love you. Hann notaði loveyouið  þegar hann lenti í umferðarteppum, og var alveg greinilegt að hann meinti eitthvað allt annað en það, en fuck you dundi eins og úr hríðskotabyssu allan tímann, sem ástarjátning til Elínar. Þá leit hann jafn mikið í spegilinn og út um framrúðuna, til að gá hvort Elín væri ekki imponeruð yfir þessu stanslausa fucki, akstrurshraðalum og ökulaginu sem var þannig að við ríghéldum okkur í allt sem fyrir var af skelfingu.

 Önnur hvor okkar hafði að orði að við gætum bara þakkað fyrir að hann dró ekki upp slátrarasveðju í lokin, svona rétt til að fullkomna verkið, og hin kinkaði kolli fullkomnlega sammála, enda báðar vart mælandi af hræðslu.

Hann skilaði okkur þó á réttan leiðarenda.

Leiðarendinn sá var með þeim bestu sem ég hef lent á, í langan tíma. Það er gengið inn í fallegt og glæsilegt hús við hliðina á hótelinu. Fyrst kemur þú við í afgreiðsunni og borgar 1700 kr. og er allt innifalið hvort sem það er matur drykkur, nudd etc., þaðan er gengið inn í baðklefana, allt hreinlegt og flott, allir baða sig vel eins og heima og klæða sig í sundfötin. Þarna færðu góðan slopp, handklæði og ilskó.
Úr þessu baðhúsi er gengið út í gríðarstóran garð, allan þakinn fallegum runnum og trjám, allt í fullum blóma, blómabeðin skarta angandi blómum í öllum litum og inn í þetta allt eru felldir litlir lundir.

Hver þessara lunda sem ég get ímyndað mér að séu ca. 50 án þess að hafa nákv. tölu hefur heita laug, sem er felld inn í nátúruna sem er öll mishá, með litlum göngustígum, brúm og lágum klettasyllum. Hver laug hefur sína hönnun og er engin þeirra eins, allar manngerðar, en engin þeirra minnir á venjulegan heitan pott. Allar eru þær útaf fyrir sig og sést ekki á milli.
Hver laug hefur sitt aroma, það eru margskonar teböð, mörg kryddjurtaböð með mismunandi kryddjurtum, endalaus ávaxta og græmnetisböð, mjókurbað, bjórbað, vínbað, vodkabað, whiskybað ofl. ofl, nefndu það bara. Við röltum þarna á milli og skelltum okkur í nokkra af þessum dásamlegu pottum, sem höfðu allir nákvæmlega rétt hitastig. Þar sem hitinn skifti ekki máli var hægt að velja um þrjár mismunandi heitar laugar, allar haganlega gerðar og stundum voru þær hver innan í annarri, þá gastu sest í hverja þeirra sem var og ausið yfir þig, heitara eða kaldara, úr hinum.

Þarna voru þrjár fallegar sundlaugar, ein þeirra var öll í litlum básum og þar var hægt að fá kröftugt vatnsnudd af öllum gerðum, sumt var svo öflugt að það voru bæði fótstig og handföng til að maður fyki bara hreinlega ekki út í buskann.

En þá kemur að pottarúsínunni, fiskapottinum. Þar lágu nokkrir karlar með vellíðunarsvip og teygðu úr sér í allar áttir. Jæja sagði Elín hin lífsreynda, þorirðu í þennan, þetta eru lifandi fiskar sem éta af manni allt dautt skinn. Ég skal alveg viðurkenna að það fór heldur betur um mína. Því stóð ég þarna smástund og horfði á karlana sem leið svona undur vel. Jæja, maður verður víst að hafa eitthvað til að blogga um, sagði ég og skellti mér ofaní af ofurmannlegri hreysti. Elín lagði ekki í þetta og horfði á mig full undrunar og aðdáunar.

Það var eins og við manninn mælt, eða réttara sagt í kroppinn nartað, að svona 2ja - 3ja cm. kvikindin byrjuðu að hamast, ég hugsa að þeir hafi aldrei verið undir 1000 í einu. Fyrst kitlaði mig svo, að ég varð að gera mig alveg grjótstífa í framan til að fara ekki að flissa framan í þessa alvöruþrungnu menn sem lágu við hliðina á mér. Það tókst, og svona um það leyti sem ég var orðin eðlileg í andlitinu aftur var þetta orðið alveg ótrúlega þægilegt. Þarna lá ég eins og skata í 40 mín. og upp steig Beggó-díta, eins og frænka hennar Afródíta forðum. Þetta er alveg fullkomnlega ótrúlegt, fiskarnir hætta að borða þegar allt dautt skinn og sigg er farið, þeir synda bara í burt í leit að meiri mat. Eitt skal ég þó viðurkenna, þó ekki sé ég þekkt fyrir sjálfshól hm..., ég var nú bara nokkuð ánægð með mig, og húðin virkar svona nokkrum árum yngri en restin af mér. Engin fótsnyrting framar, bara að gefa fiskunum í kínaspainu! Ég hefði helst viljað setja andlitið ofaní líka, en þá drukknar maður víst. Þetta er það eina sem kostar aukalega, kr. 300.

Fengum okkur kvöldmat á staðnum og fórum síðan í nudd. Það eru endalausar tegundir af því, sem ég kann ekki einu sinni að nefna, en við völdum steinanudd. Þá liggur maður á vel volgum steihellum sem heitt vatn rennur undir, meira man ég ekki því ég steinsofnaði og vaknaði aftur nýnudduð og spræk. Heimferðin var ekki eins ævintýraleg, því bílstjóri frá hótelinu keyrði okkur heim. Sá vissi allt um umferðareglur og ökuhraða - og kunni sem betur fer ekkert í ensku.

Nú þarf ég ekki að velkjast í neinum vafa um hvað almennilegt spa í Kína er. Það er fullkomið ævintýri! - og það merkilega gerðist, að það rigndi ekkert á meðan við vorum í því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Æ þarna blundaði á öfund í mér Bergljót mín, svei mér þá.  En ég gat svo sem samsamað mig þér í þessu ævintýralandi.  Takk innilega fyrir mig.  Ætli það sé ekki hægt að fá svona fiska hingað í spain hér???

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2011 kl. 15:54

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ekkert að þakka mín kæra. Ég las það í einhverju blaðinu, eða heyrði  í sjónvarpsfréttum nýlega að einhver snyrtistofa væri að flytja fiskana inn og ætlaði sér stóra hluti með þá. Einhvernveginn fór þetta samt eitthvað á skjön, þannig að ég man ekkert meira um það, en þeir eru þó væntanlegir til landsins, ef þeir eru ekki komnir.    Mér finnst þessi líta út eins og mér leið þegar þeir fyrstu byrjuðu að narta í mig.

Bergljót Gunnarsdóttir, 9.10.2011 kl. 17:02

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahahahaha!!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2011 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband