28.9.2011 | 18:04
Ferðalag
Kínapistill, nóv. ´08.
Ferðinni sem loksins var farin lauk í gær. Það er dálítið erfitt að lýsa henni, því svo lærdómsrík og falleg var hún, að það gleymist seint eða aldrei. John og Zhong Yu, eða Phoebie sem er enska nafnið hennar, sóttu okkur um tíuleytið, og héldum við sem leið lá yfir á meginlandið og til suðvesturs. Veðrið var fullkomið, u.þ.b. 20° hiti og blæjalogn.
Ekið var í gegnum eitt frjósamasta héraðið í Kína sem er suðurhluti Fujianfylkis. Útsýnið endalausir grónir grænmetis og kryddjurta akrar, ásamt ávaxtatrjám af öllum toga, og yrði manni litið upp frá dýrðinni, blöstu tefjöllin við í fjarlægð, háreist og undrafögur. Frjósemin minnti mig á Andalúsíu, en að öðru leyti eru þetta gjörólíkir heimar. Kína hefur þessa ótrúlegu dulúð sem ríkir yfir landslaginu og má vel sjá í kínverskri málaralist. Mér hefur alltaf þótt hún ævintýralega yfirdrifin, en svona eru hlutirnir bara raunverulega, í þessu einkennilega dulúðuga landi.
Fyrsti áfangastaðurinn, eftir 2ja klst. akstur, var smábær, á kínverska vísu, nokkuð stór á okkar, en inni í honum er ævagamalt þorp, byggt af Mongólskum flóttamönnum, heilum ættbálki, Jong ættbálknum, fyrir u.þ.b. 300 árum síðan. Þeir tóku sig upp undan árásum Kínverja, byggðu múra og voru á varðbergi gagnvart óvininum, sem var allt um kring. Að vísu er mér gjörsamlega óskiljanlegt hvernig þeir komust upp með þetta, en það er önnur saga.
Þorpið sem er orðið 300 ára er þarna ennþá í upprunalegri mynd, en farið að láta allverulega á sjá vegna fátæktar íbúanna. Þetta virðist þó ekki trufla þá mjög, því þeir eru glaðlyndir, allstaðar bros á vör, gestrisnir með afbrigðum, og ganga til vinnu sinnar með þessu stolti sem virðist einkenna svo mjög hinn vinnandi mann í þessu landi, og því meir sem hann er fátækari.
Frá þessum stað lá leiðin að öðru þorpi, en þangað komu forfeður fyrri þorpsbúa einum 600 árum áður frá Mongolíu, þegar þeir sáu sér ekki lífsvon vegna stanslausra hernaðaraðgerða nágranna sinna í suðri, og ferðuðust suður fyrir þá langar og efriðar vegalengdir. Höfðingjar ættbálksins, létu reisa þorpið í fallegri hlíð með ótrúlegu útsýni yfir, mér liggur við að segja guðs ríki á jörð. Allt var þetta mjög ríkmannlegt á þeirra tíma vísu, og þarna tókst þeim að leynast í Kínaveldi, í einangrun allan þennan tíma, þar til þeir neyddust til að færa sig um set.
Þess ber að geta að á þessum tíma höfðu Mongólar sótt allhart að Kínverjum. Þegar þeir sneru vörn í sókn, neyddust Mongólarnir til að flýja og byggja þorpið, það fyrra, en það mun hafa verið í kringum árið 1100. Þar lifðu þeir að mestu í friði í þessi 600 ár, áður en þeir fluttu sig um set og létu fara minna fyrir sér.
Afkomendurnir búa enn þann dag í dag, í báðum þessum þorpum, og hefur fólkið verið svo einangrað fram að þessu, að það talar ennþá eldgamla mongólsku, sem er svo sem ekki undarlegt, því fólkið, utan múranna, í þessum bæ talar ennþá sína upprunalegu kínversku mállýsku, og þess vegna m.a. gengur þeim báðum mjög erfiðlega að skilja samlanda sína sem tala mandarín eða eitthvað af stærri málunum.
Annars er þetta með talmálið hérna hinn mesti hrærigrautur sem er ekkert undarlegt , sé tekið mið af því að það eru um 50 70.000 mállýskur í Kína, að mér er sagt. Þess vegna ferðast þú ekkert um þetta land og skilur alla, þó svo þú hafir lært ríkismálið. Það er bara talað af svo örfáum, miðað við allan mannfjöldann hérna. En eitt heldur þessu þó saman, sem er ritmálið, eða táknmálið, því það er bara eitt og það skilja allir, séu þeir á annað borð læsir.
Eitt er sammerkt með öllum Kínverjum, hvar sem þú kemur, að þú sérð hvergi útréttar betlihendur og ert ekki hundeltur af fólki sem vill hafa af þér fé. Að vísu eru betlarar í borgunum, en þeir sjást ekki nema endrum og eins. Þetta er yfirleitt mjög fatlað fólk sem situr þögult og bíður eftir að einhver setji í baukinn þess. Sölumenn geta verið allaðgangsharðir, en ekki fyrr en þú hefur gefið þig að þeim. Þess vegna er svo afslappað gott að ferðast um og dvelja í landinu þar sem þjófar og allskyns hyski fyrirfinnst varla, en fólkið vinnusamt og alúðlegt með afbrigðum.
Læt þessu lokið í dag, en held áfram næst. Góðar stundir ykkur öllum til handa!
Athugasemdir
Frábær lesning að venju..
Knús og takk fyrir myndirnar.
Silla.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 28.9.2011 kl. 19:34
Sammála síðasta ræðumanni
Axel Jóhann Axelsson, 28.9.2011 kl. 19:58
Frábært og virkilega gaman að lesa skrif þín Beggó mín.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 29.9.2011 kl. 16:38
Takk öll. Þar sem ég er á stóru eylandi, og ræ nokkuð blint í sjóinn með þessa Kínapistla, sem eru 2ja til 3ja ára flestir, hvort það er nokkur sérstakiur áhugi fyrir þeim. En fyrst og fremst er ég að því til að reyna aða fá viðbrögð við þessum pistlum, því ég er í startholunum að fara lengra og reyna að skrifa einhverskonar persónulega ferðasögu, byggða að mestu leyti á þeim.
Hugmyndin að því kom frá þér Axel, á sínum tíma, en þar sem mig er illilega farið að skorta tíma fyrir allt sem ég á eftir að gera á þessari blessuðu ævi, sem er óðum að styttast, þó ekki sé ég nú beint komin á grafarbakkann, en maður verður að velja vandlega hvað maður eyðir tímanum í.
Þess vegna er mér mjög mikilvægt að þeir sem þetta lesa, láti mig vita hvað þeim finnst.
Bergljót Gunnarsdóttir, 29.9.2011 kl. 20:06
Mér finnst virkilega gaman að lesa pistlana þína Bergljót mín, það er svo gaman að fræðast um þessa fjarlægu þjóð, menningu hennar og siði. Takk innilega.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.9.2011 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.