Stutt ferð til Oslo

DSC00034 Gosbrunnur í miðborg Oslo

Ég virðist vera alger veðurfarsleg óheillakráka fyrir Norðmenn. Þegar ég kom þangað fyrir rúml. þrem mánuðum, byrjaði að rigna eftir nokkuð langan kafla með sól og blíðu, og sú rigning var með afbrigðum hressileg. Síðan rigndi í allt sumar, þar til u.þ.b. viku áður en ég kom þangað aftur, en þá stytti upp og sólin skein í heiði.

Norska þjóðin gladdist að vonum, en sú gleði stóð ekki lengi, því Bergljót mætti aftur á svæðið og það rigndi hressilega allan tímann sem hún dvaldi í landinu, en það voru sex dagar. Það síðasta sem ég heyrði í útvarapinu áður en ég yfirgaf landið, var að þetta sumar væri eitt af þrem verstu rigningarsumrum í 130 ár, eða síðan mælingar hófust.

Þrátt fyrir allan þennan vatnsaustur var þetta einstaklega góð ferð, en þar er margt sem spilar inní. Fyrst skal nefna fermingu Hildar, barnabarnsins míns, en hún var fermd í Holmens kirkju í Asker. Kirkjan er svona sveitalega nútímaleg, úr timbri og vantar allt sem heitir yfirlæti, en fallegt látleysi fær að njóta sín.

Mér fannst gefa athöfninni mikið gildi að Norðmenn eiga og nota þvílík reiðinnar ósköp af þjóðbúningum. Þessir búningar eru allstaðar frá í landinu og sumir hrein listaverk. Þeir eru allir handbróderaðir og flestir mjög fallegir. Ég held að hvert hérað hafi sinn eigin búning og mikið stolt lagt í að hafa þá sem fallegasta.

Vegna þessa skapast alveg sérstök stemmning í kringum þetta alltsaman, en fermingarathöfnin samanstóð af miklum söng og hæfilegu guðsorði, viss léttleiki og gleðistemmning ríkti vegna þessa tilefnis. Það er kannski ekki ætlast til að maður skemmti sér við fermingarathöfn, en það gerði ég vissulega og leið vel með það.

Síðan var dýrðleg fermingarveisla að íslenskum sið, með hnallþórum, brauðterum og jafnvel flatkökum með hangikjöti.

Oslo er alltaf að verða fallegri og nútímalegri og ákaflega gaman að rölta um í rigningunni og njóta. Allskyns útilistaverk eru mjög áberandi og svo eru blómaskeytingar og annar gróður í borginni alveg einstaklega fallegur.

Daginn áður en ég kom þarna var sturtað og breitt úr nokkrum tonnum af einhverskonar rauðamalarvikri fyrir framan konungshöllina, til fegurðar og yndisauka fyrir íbúa borgarinnar, en ég hef það svona létt á tilfinningunni að það sé óveðurskrákunni að kenna að allt flaut af stað í rigningunni, sem minnti helst á Gullfoss eða eitthvað slíkt, og flaut niður á aðalgötuna þeirra, Karl Johann, sem varð eins og rauð froða, og kannski ekki öllum til mikillar ánægju.

Eitt sá ég þarna sem vakti óskipta athygli mína, en það var skreyting á neðanjarðarstöð við Munch safnið. Til að vekja athygli á safninu hafa þeir gert gríðarstorar eftirmyndir af Ópinu á brautarpallinum. Þegar út er komið eru síðan skilti sem vísa fólki styttstu leið að safninu. Þetta finnst mér mikið framfararspor, því ég fór þessa leið einu sinni og fann aldrei safnið. Fyrst fór ég framhjá stoppistöðinni og síðan þegar ég loksins fór út á réttum stað, fann ég aldrei leiðina að safninu.

Oslo er að breytast í stórborg og sveitamennskan sem einkenndi hana áður, er ekki til staðar lengur í miðborginni. En sem betur fer eru öll fallegu timburhúsin þeirra ennþá til staðar um leið og komið er út fyrir hana, og er það vel.

Líklega verður Oslo alltaf í uppáhaldi hjá mér, þó svo að hún sé að verða jafn grimm, eða sumir íbúanna, eins og það versta sem við þekkjum í alþjóðlegu umhverfi okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Alltaf skemmtilegt að lesa hjá þér. Mig er farið að langa rosalega til Noregs hef ekki komið þangað í 10 ár.

Ásdís Sigurðardóttir, 20.9.2011 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband