18.8.2011 | 16:39
Torg hins himneska friðar
Við komum til Peking um hádegisbilið í kulda og rigningarúða og tékkuðum okkur inn á hótelið sem er mjög vel staðsett í miðborginni. Þetta er hótel sem tekur eingöngu á móti útlendingum, starfsfólkið er þó kínverskt, en allir töluðu mjög góða ensku. Af þessum sökum var morgunmaturinn staðgóður, á evrópskan mælikvarða, því kínverskur morgunmatur samanstendur af hrísgrjónalapi ásamt núðlum og soðnu grænmeti, aðallega linu káli og fullt af dísætum kökum, sem ég hef persónulega ekki áhuga á í dagsbyrjun.
Þegar búið var að orientera sig aðeins, fóru ferðafélagar okkar að skoða stórt náttúruminjasafn sem er staðsett í næsta húsi við hótelið. Þetta var mjög heppilegt, því þau fóru eiginlega til Peking til að gefa syni sínum ferð á þetta safn, í tólf ára afmælisgjöf. Drengurinn sem heitir Ísak er alveg á kafi í öllu sem snýst um risaeðlur og hefur verið síðan hann var sjö ára. Þarna fékk hann uppfyllingu drauma sinna og gleðibrosið datt varla af honum alla ferðina. Hann er mjög vel að sér í öllu sem snýr að þessum skepnum stórum og smáum og lét sér ekki nægja eina ferð á safnið, því hver vill ekki sjá kærustuna sína aftur og aftur þegar hún loksins birtist?
Við Oddur tókum okkur alllangan göngutúr að Torgi hins himneska friðar. Þetta er um fjögurra km. spölur eftir sömu götunni, en beggja vegna við hana á rúml. fimm ferkm. svæði er búið að rífa stórt fátækrahverfi sem stóð þarna á verðmætustu lóðunum í Peking (vegna staðsetningar) og á að byggja þarna nýjan miðbæ, sem á að vera tilbúinn fyrir Ólimpíuleikana, en þeir byrja í ágúst 2008.
Stjórnvöld ætluðu að byggja þarna gríðarmikið Manhattan, en arkitekt nokkur sem ég kann því miður ekki að nefna barðist fyrir annarskonar hverfi með öllum tiltækum ráðum - og vann. Ergo þarna verður byggt alveg undursamlega fallegt verslunar, veitingasaða og íbúðarhverfi, hæstu húsin þrjár hæðir og allt í kínverskum stíl. Loka röksemdir hans voru að Kína væri svo miklu eldra og betra land en hinn vestræni heimur, og því þá að eyðileggja höfuðborgina með amerískum nútíma byggingum í stað þess að láta menninararfinn njóta sín. Allar sórborgir í Kína eru fullar af háhýsum sem og hverfin utan gömlu borgarmúranna í Peking. Þetta gátu yfirvöld ekki hlustað á og hann fékk að ráða. Það voru myndir af líkönum af þessu öllu, uppdrættir og greinargóðar útskýringar á ensku.
Gangan tók okkur hátt í tvo tíma en þá komum við að tveim gríðarstórum hliðum, eins og það er kallað, undurfögrum, eins og allt það gamla í þessu landi er. Þetta eru gamlir varðturnar, til að fylgjast með óvinaherjum og vernda keisarana, en pupullinn fékk aldrei að fara lengra en að þeim, skítt með að láta brytja niður nokkur þúsund manns fyrir utan ef í það færi.
- Að baki þeim liggur svo torgið sjálft. Það er alveg ólýsanlega undarleg tilfinning að koma þangað á grámyglulegum ísköldum vetrardegi, allt mannlaust, utan nokkurra sölumanna sem voru að selja flugdreka, þetta virkaði allt í svart - hvítu
Svo gríðarstórt er þetta í sniðum, með stórri gamalli höll í miðjunni og görðum í kring um hana. Torgið sjálft er hellulagt og alveg af einföldustu gerð, þó ummálið sé mikið, nokkrir fallegir ljósastaurar í kring en engir bekkir til að sitja á eða neitt í þeim dúr og engin merki um mannlíf af neinu tagi. Það nísti í gegn um merg og bein að ganga um og hugsa til atburðanna sem þarna gerðust og sjá kúlnagötin sem eru ennþá sjáanleg í stéttinni. Þetta er svo hrikalega stórt, fallegt, einmannalegt og sorglegt.
Við fórum út að borða um kvöldið, fengum frábæra, ja hvað haldið þið? Þessi var erfiður: Pekingönd! - ásamt ýmsu öðru góðgæti og hef ég ekki borðað svona mikið í langan tíma, þó ekki hafi ég beinlínis verið talin í svelti hérna - eins og þið ættuð að vera farin að skynja.
Athugasemdir
Ásdís Sigurðardóttir, 19.8.2011 kl. 13:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.