Lofthræðsluleysi og gullmoli

 

 

IMG_0145Landlega í litlu sjávarþorpi

Eitt hugtak virðist ekki vera til í Kína, en það er lofthræðsla. Ég hlýt að hafa óvenjulega sterkt hjarta að horfa á þessa lofthræðluleysishegðun fólks Við búum á þrettándu hæð en ræstikonan okkar, vílar sér ekki við að fara út um stofuglugann (alveg) og stendur þar á ca. 5 cm breiðri álímdri graníthellu alveg flughálli og heldur sér lauslega í gluggapóstinn.Þarna teygir hún sig eins langt og hún nær og hamast mjög við gluggaþvottinn. Í fyrsta skipti sem hún gerði þetta, brá mér all illilegaog augsýnilega, og þá tók hún bakföll af hlátri en ég settist bara niður titrandi og skjálfandi og þakkaði mínum sæla fyrir þetta sterka hjarta. Um daginn var verið að skipta um ljósadótið sem hangir hér á öllum húsum, og voru nokkrir gaurar hangandi utan á 14 hæða húsinu hérna a móti, í einhverskonar kaðli, grönnum mjög og neðst í kaðalinn var fest smáspýta, handhnýtt sem þeir sátu á.

Á þakbrúninni, alveg fremst, stóð  maður og hallaði sér alltaf fram til að fylgjast með þeim við vinnuna, og þegar þurfti, ýmist hífði hann eða slakaði þeim, upp eða niður. Festingin efst var þannig að bandinu var vafið í tví- eða þrígang utan um handriðisræfil sem á ábyggilega að vera einhv.konar öryggisgirðing, en enginn virðir. Þegar hann þurfti að hífa og slaka losaði hann einfaldlega bandið og gerði þetta allt af handafli og hnýtti síðan einhverskonar lykkju að verkinu loknu. Mennirnir héngu sallarólegir eg létu sér ekkert bregða. Eins gott að enginn þeirra haldi við konu hífarans og hann komist að því. Eg persónulega fæ bara sting í nárann, þegar ég hugsa um þetta.  

071 Svona eru barnaheimilin í Kína, en þá á ég ekki við um munaðarleysingjahæli. Þar er ekkert skraut og engin gleði, og eingöngu stelpur.

 Það er farið að rigna, og hefur rignt nokkuð hressilega, þó ekki sé von á regntímabilinu fyrr en eftir áramót.

Elín og Sólkatla systir hennar (sem ég á ekkert í), fóru í langan hjólreiðatúr í gær, sem varð hálf endasleppur þegar sprakk, með hvelli, á hjólinu Elínar. Þetta var töluvert langt fá heimilum þeirra og góð ráð dýr, að þurfa ekki að ganga með hjólin til baka. Þær stóðu þarna heillengi og reyndu að stöðva vegfarendur og spyrja á einhverri íslenk-ensk-kínverskri málblöndu hvort einhver vissi um reiðhjólaverkstæði í nágrenninu.

 Það hlýtur að vera fullt af þeim í þessari margmilljón hjóla borg. Enginn brást við og fólk forðaðist þær eins og heitan eldinn, þó föngulegar séu, allavega á vestrænan mælikvarða.Álengdar hafði staðið kengbogin og gömul betlikerling sem allt í einu, eftir svona hálftíma eða svo, nálgaðist þær og á leiðinni hvæsti hún á þá sem urðu á vegi hennar með einhverskonar fissssh hljóði og bandaði öllum í burt með stuttri en snöggri handahreyfingu. Þegar hún kom að þeim notaði hún sama hljóðið og handahreyfinguna til að benda þeim að elta sig.

 Kerlingin var svo skítug og illa til reika að þær vissu ekki alveg hvernig þær áttu að bregðast við. En henni varð ekki þokað, hún hvæsti og bandaði og benti á rassinn á sér svo þær ákváðu að elta. Eftir að hún hafði leitt þær áfram, dágóða stund, og hvæst og bandað öllum burt sem á vegi hennar urðu, fóru göturnar að þrengjast og standardinn á umhverfinu að lækka, þannig að þeim hætti smám saman að verða um sel.

Kerla hélt áfram ótrauð en Sólkatla spurði Elínu hvort þetta væri ekki að verða tvísýnt. Elín hinn týpiski íslenski víkingur í neyð sagði, skíthrædd að vísu, að það væri nú hábjartur dagur ennþá og tvær íslenskar á besta aldri hlytu að ráða við eina eldgamla betlikerlingu og hennar hyski ef svo bæri undir. Áfram hélt kerling og alltaf varð umhverfið þrengra og skuggalegra og þær orðnar alveg rammvilltar. Alt í einu stoppaði sú gamla og fnæsti hátt og bandaði hendinni, eins og áður, á karl sem sat í algjörum ruslahaug, inni í smáskonsu, og reykti eins og hann ætti lífið að leysa (sló mér næstum við að sögn). Sá brosti út að eyrum þegar hann sá fylgifiska kerlu, og þá hætti nú Elínu stóru systur að lítast á blekuna, eða þannig.

Hún fór nú að líta í kring um sig og sá þá í öllu draslinu, eitthvað sem líktist reiðhjólaslöngu og svona hitt og þetta annað sem kom reihjólum við. Karlinn tók hjólið, ég veit ekki hvort hann hætti að brosa þegar hann sá slönguna, en það reyndust þrú stór göt á henni ,en sá var ekki svifaseinn, að bæta þetta allt eftir kúnstarinnar reglum. Verðið, jú 9 kr. ísl. á gat, og ekki nokkur leið í gleðinni og léttinum sem þessu fylgdi að hækka verðið við hann.

Eftir að hafa hvatt karl með virktum var farið að svipast um eftir þeirri gömlu og stóð hún þá á næsta götuhorni og fylgdist vel með. Elín gekk til hennar og ætlaði auðvitað að gauka einhverju að henni fyrir alla hjálpina og tímann sem fór í þetta, en sú gamla bara fnæsti á hana eins og alla hina, fisssh, og bandaði þeim í burtu eins og hún hefði aldrei séð þær áður og ekki viðkomandi að gefa henni í baukinn sinn sem aðrir máttu þó gera. Þessi litla saga segir mér  hvað það leynast skínandi fallegir gullmolar í mauraþúfunni hérna.  Jæja, hann rignir ennþá en rigningin er heit og þægileg og svo sem ekkert undan henni að kvarta. Þakka þeim sem lásu og hafið það nú virkilega huggulegt í snjónum og frostinu inni í hlýjunni heima! 

Þegar ég tek upp svona gömul blogg er erfitt að ráða við hvernig þau koma út á þessu bloggi núna. Stundum kemur allt í einum hnapp, hversu sem ég hamast við að hneppa frá, en stundum er allt í lagi.

Þetta verður bara að vera eins og kaupin gerast á eyrinni hverju sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Æ hvað þetta er flott, og lofthræðslupúkinn ég stend á öndinni yfir þessum kínverjum, svei því bara Bergljót mín.  Takk fyrir þessa frábæru frásögn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.8.2011 kl. 22:48

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Takk fyrir..Frábært að endurflytja svona skemmtilegar frásagnir! Aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Kveðja úr Heiðarbænum sem bíður gestanna í dag í þessu fagra veðri:-)

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 9.8.2011 kl. 10:02

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég endurflyt þetta ,vegna þó nokkurs fjölda áskorana.

Bergljót Gunnarsdóttir, 9.8.2011 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband