6.8.2011 | 18:14
Fótanudd og Karioki
Færsla nóv. 2006
Í dag er ég leið og í dag vil ég liggja,
lengst undir sænginni og klóra mér vel.
Flugnabit fjandans ég ekki vil þiggja,
fjárinn sá beit mig mér varð ekki um sel.
Farðu í heitasta hel, ég minn óvin þig tel.
Moskítofluga - til þín hatur ég el!
Svona er nú heilsan hjá mér! Við sátum úti í gærkvöldi á yndislega fallegum veitingastað og borðuðum ítalskan mat, en yours truly gleymdi að setja á sig moskíoeitrið. En hvað um það, lífið heldur áfram og svo var maturinn alveg þess virði.
Við vorum að koma af konsert sem Elín og Rúnar héldu, í kínversku nútíma gallerýi, og var ákaflega fallegur, við góðar undirtektir. Gamla móður og tengdamóðurhjartað sló ansi ljúft og stolt undir þessu.
Eftir matinn fórum við, í góðum fíling, í axla, bak og fótanudd. Þær stofnanir eru opnar allan sólarhringinn og eru alveg jafnvinsælar og pöbbarölt eða annað álíka. Sumar eru gríðarstórar og þessi sem við vorum á tekur mörg hundruð manns í einu.Þarna liggur maður í djúpum stól og sötrar bjórglas svona rétt fyrir háttinn. Ó, þú ljúfa líf!
Fótanudd og Karioki eru langalgengustu afþreyingarstaðirnir hér um slóðir og alveg gríðarlega vinsælir. Kariokiið er alveg alveg sérstakt fenomen. Þetta eru gríðarstórir staðir, oft á mörgum hæðum og er skipt niður í mörg hundruð misstóra klefa, yfirleitt mjög huggulega með þægiðegum húsgögnum og litlu sviði til að syngja á. Hljóðkerfið gott og þú getur valið textann á um 4 5 tumgumálum.
Þarna er hægt að kaupa allt sem rennur, allskyns smárétti og snakk, semsagt verið í vellystingum og praktuglega og haldið gott partý ef svo ber undir. Þetta er sótt af öllum þorra fólks, háum og lágum. Mjög algengt er að vinnufélagar skreppi í matartímanum og taki nokkur lög saman. Helgarsportið hjá heilu fjöskyldunum er að taka lagið saman, svona eins og við heima skreppum á skíði eða eitthv. álíka. Ég þakka mínum sæla fyrir að þurfa ekki að hlusta á þann samsöng, mér finnst alveg nóg að heyra í einum innfæddum syngja í einu, hvað þá heilli rammfalskri fjölskyldu því músikalitet kemur þessu ekkert við.
Svo eru sérmerktir kariokistaðir, bara fyrir karla og alveg fullt af þeim. Þeir finnst mér alveg dýrðlegir, því þar fær karlremban notið sín að fullu. Þeir fara þarna einir, eins og vera ber í fínu hóruhúsi, fá að velja sér eina af hundruðum stúlkna sem þurfa að ganga í röð og láta velja sig. Þeir taka veslings stúlkuna með sér inn og syngja fyrir hana af hjartans lyst.
Ekki er krafist sönghæfileika frekar en í öðru kaiokíi. Ef hún klappar ekki og ærist af hrifningu, skila þeir henni og fá aðra, alveg þangað til einhver er nógu góð leikkona og tryllist af hrifningu (eða bara tryllist), þá láta þeir kannské svo lítið að sofa hjá henni, ef þeir eru þá bara ekki orðnir alveg steinuppgefniraf öllum söngnum og sofnaðir. Það er misjafnt mannanna bölið.
Athugasemdir
Ásdís Sigurðardóttir, 7.8.2011 kl. 11:11
Bergljót Gunnarsdóttir, 7.8.2011 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.