6.8.2011 | 12:31
Domestic vandamál
Langur laugardagspistill.
Bloggffærsla frá nóv. ' 06.
Götumyndir frá Gulangyu. Eins og sjá má er þetta sjopppa hérna til vinstri,
Eins og klukka vakna ég alltaf kl. 6 á morgnana síðan ég kom hingað. Til að byrja með fór þetta ógurlega í taugarnar á mér, en hvernig sem ég reyndi tókst mér ekki að sofna aftur. Einn morguninn settist ég hérna út í svalir í dögun í ógurlegri fýlu yfir ástandinu. En það stóð ekki lengi því allt í einu í grafarþögninni sá ég mann á svölunum hérna á móti gera morgunleikfimina sína. Hún stóð yfir í ca. 45 mín, og það var ekki vöðvi eða liðamót neinsstaðar í líkamanum skilið eftir. Ég fór að fylgjast með manninum (svona hálfpartinn í laumi)og þvílík kúnst.
Smám saman fóru að heyrast allskyns hljóð og borgin fór að vakna. Verkamennirnir með handvagnana sína fóru á stjá, húsmæður að þrífa svalirnar sínar á meðan ein og ein kallaði eða æpti á karlinn og barnið, byrjað var að hengja þvottinn á snúrurnar (herðatrén) og þá uppgötvaði ég þau dásamlegu sannindi að ég er ekkert árrisul á kínverskan mælikvarða.
Síðan tók eitt við af öðru og kl. 7 er allt komið í fullan gang.. Núna sest ég alltaf út með góðan tebolla og fylgist með borginni vakna og það er gott. Alveg steinhætt að gjóa augunum á leikfimisséníið bara góni á hann svona álíka og innfæddir gera, hver á annan og mig líka ef út í það er farið.
Við vorum boðin að vera við opnun á sýningu eftir rússneska listakonu sem býr í Noregi og hefur tekið sér kínverst nafn. Þessi ágæta kona hélt álíka langa og leiðinlega ræðu og hún heitir mörgum nöfnum og það á rússnesku, ensku og lét síðan túlka allt á kíversku Það voru auðvitað allir að sofna yfir þessu og þegar hún loksins hætti var orðið dimmt, en til stóð að skoða þetta í dagsbirtu.
Samt var reynt láta mann sjá eitthvað, sem gekk ekki, þannig að ljósin voru kveikt og þessi andstyggilega sérkínveska bláa flúorljósabirta stakk bæði listaverkið og sýningargesti.
Þrátt fyrir þetta allt var sýningin gullfalleg og aðstandendum Við lítið Búddahof.
til stórsóma, utan ræðuna löngu og kíverska ljósasystemið.
Það stóð nú eiginlega ekki til að setja sig á háan hest sem einhver kritikker en það er bara svona.
Í gærkvöldi fórum við Oddur út að borða á ítölskum stað, hérna ekki langt frá og gengum síðan heim í gegnum garðinn stóra, sem er í raun eyja úti í stóru vatni. Þar var Rúnar að spila og syngja á cosy stað sem heitir því skemmtilega nafni Asgard eða Ásgarður. Svona nöfn eru ekki algeng hér um slóðir. Við tylltum okkur þar og fengum okkur gin and tonic, of course, og löbbuðum síðan heim í goody fíling. Það vill svo skemmtilega til að þetta liggur allt í nokkuð beinni línu, gangan héðan að brúnni, eyjan, önnur brú úr eynni og gangan að Tutto Bene en það er þessi ítalski staður. Út úr þessu fær maður semsagt nokkuð langan göngutúr í kvöldblíðunni og ljósadýrðinni, góðan mat, tónleika og smá laugardags kenderí. Ekki alvont?
Hér má sjá þvottaaðstöðu flestra kvenna
lítill vaskur utandyra og svo allt hengt upp
þar sem eitthvað pláss er, en oft er slegist
um þerriplássið.
Nýr dagur.
Góðan daginn góðir hálsar. Nei fjárinn hafi það, ekki vildi ég láta kalla mig háls. Góðan og blessaðan daginn öllsömul. Nú er klukkan að verða sjö að morgni og vinur minn hérna á móti, þessi fimi, hættur öllum sínum fettum og glæsileika. Hann er alveg ómótstæðilegur.---- E.t.v. er ég bara komin á þann aldur að vera farin að glápa á strákana, who knows?
Það hafði dottið hérna inn auglýsing, á kínversku, samt gat ég lesið upptalningu á ýmsum vestrænum sjónvarpsstöðvum þar á meðal. Sports Channel og svo ýmsum frétta og fræðslumyndastöðvum.
Þar sem minn heittelskaði, er mesti áhugamaður sem ég þekki um enska boltann og evrópumeistarakeppnina ákvað ég að gleðja hann óvænt og taka miðann með til að láta Joey, sem er kínverji í vinnu hjá okkur öllum og við getum hringt í hvenær sem er til að vera málpípa okkar, lesa og þýða sem endaði með því að hálftíma seinna var búið að panta gerfihnattadisk sem nær 55 stöðvum.
Allur pakkinn og árs áskrift á uþb.tíu þúsund kall. 10 mín seinna var hringt og sagt að mennirnir myndu mæta með allt krúsidúlluverkið og setja það upp NÚNA. Þeir eru ekki lengi að þessu kínverjarnir, --- og þó.
Mennirnir byrjuðu á að setja upp diskinn og tengja allt draslið, og svo settumst við voða spennt og þeir kveiktu. En viti menn, allt á rugli, mennirnir hömuðust í öllum tökkum, alveg kófsveittir, en allt kom fyrir ekki. Eftir nokkra íhugun ákáðu þeir að hringja eftir nýju boxi, Eftir það box og ennþá meiri íhugun var hringt eftir 3ja boxinu og þá komu tveir menn í viðbót og kættist þá hugur minn mjög.
Annar af þessum nýju henti sér á sófann og steinsofnaði og hinn fékk sér sígarettu og hafðist svosem ekkert annað að, en að góna á hina með vægast sagt ógáfulegum svip. Upphaflegu gaurarnir voru nú orðnir á svipinn eins og ungur drengur sem missir niður um sig buxurnar á fyrsta stefnumótinu og fóru eitthvað að íja að því að senda eftir 4ða boxinu
Ég var farin að sjá fram á að maðurinn myndi sofa á sófanum alla nóttina, við orðin sársvöng og ekki leist mér á að bjóða liðinu í mat, þannig að ég sagði að mér litist eiginlega ekkert á að sitja til kl. 8 í fyrramálið og bíða þá eftir svona 12, til 13. boxi. Þetta fannst þeim alveg svakalega fyndið og mér eiginlega líka, að þeim skildi finnast það. En þeim létti greinilega og ákváðu, þá orðnir mjög alvarlegir á svip og ábyrgðarfullir að þetta væri tæknilegt vandamál sem þeir þyrftu að fara með heim og hugsa til morguns. Ég vona að þeir geri meir en að hugsa, það þarf víst líka að leysa. Jæja, jæja þeir fóru kl. að ganga 11 og tóku þennan sofandi með sér.
Nú er bara að sjá hvað dagurinn ber á skauti sér. Fær Oddur enska boltann, missir Beggó þolinmæðina, koma kannski tveir sofandi, verður allt vitlaust, eða koma þeir bara ög gera þetta rétt? Þá vitið þið hvernig domestic vandamálin eru í Kína eða þannig. Ekki orð um það meir fyrr en leikslokum.
Þeir segja hérna að veturinn sé kominn, búnir að loka öllum sundlaugum og enginn á ströndinni, en ég sé engan mun. Hitinn þetta 23 24° á daginn og eitthvað svalara á nóttinni. Svona eiga vetur að vera. Núna er fínt að fara út á strönd og finna alls kyns steina og slípuð postlíns og glerbrot í mósaikið, svo maður tali ekki um fallegar skeljar og kuðunga.
Listmálaraverslun og
eitt af þessu húsasundum sem heilla mig svo mjög.
Hér má sjá alveg stórglæsilega þvottaaðstöðu með skolkari.
Í dag kemur síðasta stykkið sem vantaði til að fá fullbúið verkstæði en það er rekki fyrir glerið. Ég var svo heppin að hitta á þennan ágætis mann sem smíðaði vinnuborðið og er að þessu núna. Sá er sko betri en enginn og nú neyðist Beggó til að hætta öllu gjálífi og sulli og fara að vinna.
Framhald.
Skal tekið fram að ég er búin að margreyna að skilja sundur texta og myndskýringar við þessa færslu, en það hrekkur alltaf í sama farið aftur. Vona að fólk finni út úr þessu án mikillar áreynslu.
Athugasemdir
Ásdís Sigurðardóttir, 6.8.2011 kl. 15:13
Virkilega gaman að lesa þetta og kynnast þessari menningu sem er mér svo fjarlæg. Takk fyrir mig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.8.2011 kl. 18:57
Takk sömuleiðis Ásthildur. Ég er að hugsa um að deila reynslu minni frá Kína, á næstunni, með ykkur hérna á blogginu. Þið æpið bara á vægð eða hættið að lesa þegar þið hafið fengið nóg, en ég á mörg hundruð færslur frá þessum rúml. fjórum árum mínum í landinu.
Mér finnst nauðsynlegt að hafa fyrstu færslurnar sem ég vel, úr daglega lífinu, sem kynnir þó vel þennan gjörbreytta heim sem ég gekk inn í. Vona bara að mér takist að leyfa ykkur að njóta með mér. En þetta ævintýri sem var í upphafi farið til heilsubótar, endaði sem stærsta upplifelsi ævi minnar, svo áhugavert og skemmtilegt, fallegt, ljótt, ódýrt, niðurdrepandi og uppbyggjandi sem það var. Þetta var skynsamlegasta ákvörðun sem ég hef tekið hingað til.
Bergljót Gunnarsdóttir, 6.8.2011 kl. 19:29
Gaman að lesa Beggó mín og eigi síður fyrir þig að upplifa menningu annarra, að láta sér detta í hug og þora það er mitt mottó.
Knús í helgina þína
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 6.8.2011 kl. 19:53
Milla mín, en æðislegt að sjá til þín, takk fyrir komuna!
Bergljót Gunnarsdóttir, 6.8.2011 kl. 20:16
Takk Bergljót mín, það er virkilega gaman að fá aðeins að kíkja inn fyrir þröskuldinn í Kína.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.8.2011 kl. 20:44
Mun fara að koma oftar inn með haustinu
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 7.8.2011 kl. 22:19
Gott Milla mín,
alltaf velkomin. 
Bergljót Gunnarsdóttir, 8.8.2011 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.