5.8.2011 | 19:05
Kveðja frá Beggó Group
Bloggfærsla frá 0kt. ' 96
Þá er lífið að komast í gang hjá okkur í þessari yndislegu borg andstæðnanna. Hún er gríðarstór og mjög nútímaleg, en svo koma hverfi inn á milli sem eru næstum eins og að hverfa mörg hundruð ár aftur í tímann.
Mannlífið spannar allan skalann, þannig að maður ýmist grætur eða hlær innra með sér, allt frá börnunum sem ég minntist á áður sem hafa verið beinbrotin og bækluð af foreldrum sínum og send út af örkinni á litlum hjólabrettum, með fæturna mölbrotna þannig að þeir vísa í allar áttir, og þau ýta sér áfram með höndunum, til að betla handa fjölskyldunni, - upp í fólk sem er svo ríkt að það þarf allt upp í átta lífverði til að hlaupa í kring um sig. Og það fólk held ég að líti aldrei í kringum sig, því það vill ekki sjá eymdina. Þar á milli er svo alþýðan, mjög vingjarnlegt fólk og brosmilt að öllu jöfnu og algjörir vinnuþjarkar. Einn af þeim er hérna frammi núna að setja upp vinnustofuna mína.
Umferðin hérna er svo mikið kraðak, að það þyrfti a.m.k. kolruglaðann mann til að skilja hana, ég held að flestir Íslendingar séu allt of skynsamar til þess. Bílarnir æða hver um annan þveran og fólkið líka og þótt það sé allt fullt af umferðarljósum, þá eru þau ekkert sérstaklega til að fara eftir, nema svona með happa og glappa aðferðinni. Við skulum ekkert tala um hraðann! Við þurfum að ferðast allar lengri leiðir með leigubílum og þá sest maður bara upp í og krossar sig og passar að horfa ekki fram á veginn, því þá myndi maður af öllum líkindum lenda á einhverjum kínverskum Kleppi. Ekki orð um það meir.
Við erum búin að borða mikið af góðum og ekta kínverskum mat og finnst mjög gaman að kynnast öllu í kringum það. Hann líkist ákaflega lítið kínverska matnum á vesturlöndum án þess að setja nokkuð út á þann mat. Hér þekkist varla sykur í réttunum en þeim finnst gott að fá sér ferska ávexti til að fá sykurinn í desert, aðallega melólur af öllum gerðum.
Við vorum boðin í mat í gærkvöli af viðskiptafélaga sem útvegar mér það sem hægt er að finna til gleslistar. Þeir hafa þann sið hérna að ef þeir meina eitthvað með viðskiptunum, þá bjóða þeir í allsherjar dinner, báðar fjölskyldur, afi, amma, foreldrar og börn á báða bóga. Þetta var alveg meiriháttar veisla og maturinn frábær, svona 10 réttir með allskyns sósum og allt eldað á borðinu, í potti sem stanslaust var bætt í, svo allt væri alltaf nýeldað.
Þegar maður kingir síðasta bitanum standa allir upp og kveðjast með virktum. Það er ekkert verið að hangsa af óþörfu. Don´t mix dinner with pleasure. Mér fannst þetta algjört æði. Ég kýs nú samt að að nota ekki þessa koma, borða fara aðferð, því maður vill nú helst slaka aðeins á.
Það er ótrúlega erfitt en stundum mjög gaman að versla hérna talandi ekki stakt orð í málinu en þetta tekst alltaf. Ég fór td. í dag að kaupa hosuklemmu á slöngu sem er hérna á svölunum, bara svona til að hreinsa þær, og þurfti að teikna klemmuna og ná í slöngu sem ég sá í búðinni til að sýna þeim, en þetta tókst allt og báðir höfðu gaman af.
Fyrsta verslunarferðin okkar hér var í gríðarstóra verslun, sem sérhæfir sig í öllum vörum og búnaði fyrir hótel, Þarna keyptum við allt sem við þurftum í þessa dásamlegu íbúð sem við höfum.Til þess vað versla þarna þarftu að vera á vegum einhvers fyrirtækis. Þar sem þetta er eina verslunin sem selur evróskan mat og krydd verður venjuleg kona frá Íslandi að stofna fyrirtæki á staðnum og helst auðvitað að vera alveg svakalega merkileg á svipinn á meðan.
Ég leit á þá alveg ísköld á framan í manninn og sagði bara Beggó Group, og þar með er ég komin í hóp með Jóa í Bónus og þeim öllum. Bara smásvindl eða þannig og maður er nánast kominn með mikilmennskubrjálæði að vera heilt Group. Ekki það að Jói í Bónus sé neinn svindlari eða þannig, vinur fáfæka mannsins og margdæmdur saklaus af öllu slíku. Það er nánast guðlast að nefna hann í þessu sambandi.
Athugasemdir
Góður pistill, eins og aðrir Kínapistlar (og fleiri svo sem).
Axel Jóhann Axelsson, 5.8.2011 kl. 19:47
Takk fyrir þetta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.8.2011 kl. 20:45
Ásdís Sigurðardóttir, 5.8.2011 kl. 21:07
Gaman að fá að fylgjast með ævintýrinu.
Jens Guð, 5.8.2011 kl. 23:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.