Engin sálarkreppa hér

 

Undanfarin vika var einkar viðburðarík og ánægjuleg. Fór í fimm daga ferð til Noregs ásamt tveim systrum mínum að heimsækja þá fjórðu, en hún er búsett þar.

Veðrið var eins og best lætur á Íslandi við svona stórviðburð, alveg grenjandi rigning og slagviðri, enda flæddi allt og einhverjir skaðar hlutust af. Síðasta daginn stytti þó upp með sól og öllu því sem hún getur skartað. Það minnti mig á part úr ljóði Tómasar Guðmundssonar um hana Hönnu litlu. „ Heyrirðu ekki sólskinshafið silfurtært um bæinn falla.“ Þannig vill einnig til, að Tómas samdi þetta ljóð, að mér er sagt, til föðursystur minnar sem hét Hanna. Hún var víst gullfalleg og vinsæl mjög, en lést úr „innanmeini“ aðeins 20 ára gömul, en það er nú önnur saga.

Þennan síðasta dag vorum við boðnar í fjölskyldugrillveislu út á einni af þessum unaðslegu eyjum í Oslóarfirðinum , en þar á fjöskylda systur minnar þrjú hús í þyrpingu, alveg prívat og bara æði.

Elsta systir mín, sem hefur ekki hreyft sig af nokkru viti í hundrað ár, og komin langleiðina í hjólastól að fullu, var hin sprækasta þegar hún var studd niður í bátinn sem flutti okkur út í þessa undraveröld á ca. 10 mín., en það kom örlítið annað hljóð í strokkinn þegar fara skyldi frá borði, það hljóð kom eiginlega í skrokkinn, eða þannig. Hún þorði ekki fyrir sitt litla líf að láta lyfta sér upp úr bátnum og gaf frá sér nokkur angistarvein, sem endaði auðvitað með að henni var bara bannað að láta svona, ekkert múður og bara skutlað upp á bryggjuna eins og fisi.

Þegar við fórum svo tilbaka með bátnum um kvöldið allar rallháfar og kátar, gleymdi mín alveg að æmta og horfði bara í kringum sig með bros á vör og barði ekki lóminn. Guði sé lof ganga valtarar ekki á sjónum, hún hefði skellt sér fyrir einn á nóinu, af tómri hamingju. Það er ábyggilega rosalega ljótt að tala svona um heittelskaða systur sína, en svona er þetta bara.

Þrátt fyrir alla rigninguna tókst mér þó að skoða óperuna þeirra sem stendur á fallegum stað við ströndina. Þetta er glæsileg bygging, þó ekki jafnist hún á við Hörpu, sérstaklega að innan, og skoða nokkur söfn, ásamt því að heimsækja gamalt þorp suður með ströndinni. Hver getur munað nafnið á litlu fallegu norsku sveitaþorpi þegar það rignir svona rosalega. Það sem hafðist út úr þeirri dagsferð var extra góð pizza, innandyra og rigningartaumarnir á rúðunum, innanbíls, gott kompaní og mikill hlátur.

Jæja þá kemur mitt rétta innræti í ljós, ég á nefnilega son, tengdadóttur og tvær yndislegar dætur þeirra þarna líka, sem ég var nærri búina að gleyma að minnast á. Þau hafa búið í Noregi í 16 ár og farnast vel. Ég hef ekki heimsótt þau lengi, en nú var bætt úr því og þau kokkuðu þennan líka fína mat, tóku á móti okkur með kampavíni og jarðarberjum, nýrri norskri, safaríkri uppskeru, jum jumm.

Þau koma oft til Íslands þannig að það eru svo sem engin drottinssvik að gleyma þeim í frásögninni, en það var gott að koma eina kvöldstund og knúsa þau og rabba við.

Heimkoman var nú samt það ánægjulegasta, því á fimmtudaginn var Oddur Björnsson, besti vinur minn og sálufélagi, ásamt því að við eigum víst nálægt heimsmeti í trúlofun, eða ca 28 ár, sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar fyrir framúrskarandi ævistarf í formi sviðslista. Hann hefur samið 22 verk fyrir útvarp sem hafa öll verið flutt og tíu fyrir leikhúsin ásamt því að vera leikhússtjóri á Akureyri um tíma og setja upp svona ca. 10.000 sinnum með áhugaleikhópum víða um land.
Jú hann setti upp Beðið eftir Godot, eftir Samuel Beckett hjá leikfélagi Akureyrar og fór með sýninguna til Írlands á Beckett hátíð í Bantry um árið, við mikinn fögnuð og prís. Fyrir þá uppfærslu hlaut hann menningarverðlaun DV á sínum tíma.

Þessi Beckett sýning var með eindæmum illa sótt á Akureyri og sýningarnar urðu ekki nema þrjár. Þess má þó geta að fullorðin kona sem kom á frumsýninguna, sótti hinar tvær líka og hafði á orði að þetta væri eins og níunda sinfonia Beethovens?? Hún sat ásamt þrem öðrum í salnum á síðustu sýningunni og naut hennar í botn. Þetta er eitt af því eftirminnilegasta og á vissan hátt fallegasta sem Oddur hefur upplifað í leikhúsinu.

 Gagnrýnandi  þarna norðan heiða kunni lítið að meta þetta framlag leikfélagsins og rakkaði sýninguna niður sem mest hún mátti. En þegar þessi sama sýning var fengin á listahátíð í Reykjavík, þustu norðanmenn suður til að upplifa þessa dásemd úr heimaranni, og yrði ég ekki hissa þó gagnrýnandinn hefði verið þar fremstur í flokki, en það er mér þó alls ókunnugt um. Ekki ætla ég að verða til þess að bera upp á listrýninn, að hún hafi séð svona ferlega sýningu aftur, bara af því hún var á Listahátíð  Það er víst alltaf þessi spurning um spámennina og föðurlandið.

En fátt hefur glatt mig eins mikið um dagana og þessi nýfengna viðurkenning Odds. Hann er kominn á efri ár, og löngu tímabært að heiðra hann, að mínu viti. 

 Ég elska þennan gaur, og samgleðst honum, það má alheimur vita. InLove




 


mbl.is „Kreppulög“ á Ingólfstorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Innilegar hamingjuóskir með hann Odd þinn..Gott að vera svona "ný"trúlofaður..Hann virðist bera vel bæði aldur og krankleika..Hlakka til að sjá ykkur skötuhjúin hér í Heiðarbæ:):)

Bestu kveðjur.

Silla.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 19.6.2011 kl. 22:32

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Óska Oddi til hamingju með afar verðuga og tímabæra viðurkenningu og þér með hann.

Axel Jóhann Axelsson, 19.6.2011 kl. 23:23

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mig minnir endilega að hann hafi sett upp "á Útleið" hér með LL fyrir allmörgum árum.  Magnað verk og hann var ansi nákvæmur á öll smáaatriði.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.6.2011 kl. 23:54

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Kærar þakkir bæði tvö.

Bergljót Gunnarsdóttir, 20.6.2011 kl. 00:03

5 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Hann er þekktur fyrir þessa nákvæmni Ásthidur, enda leikhúsið hans ær og kýr og því má ekki bregðast.

Bergljót Gunnarsdóttir, 20.6.2011 kl. 00:06

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Til hamingju með hann Odd þinn Beggó mín og með hvort annað.

Knús kveðjur

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.6.2011 kl. 11:54

7 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Bestu kveðjur héðan.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 25.6.2011 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband