Congress

100_1431

 

 

Sá auglýsingu um aðstoð við ráðstefnuhald hérna á mbl.is og þá rifjaðist upp fyrir mér gömul saga.

Þannig var, að hér var haldin norræn læknaráðstefna á árum áður, stórglæsileg og vel sótt að mér var tjáð.  Fjórir bestu vinir föður míns voru allir læknar og þ.a.l. þáttakendur í ráðstefnunni og a.m.k. tveir þeirra fluttu erindi. Faðir minn sem var skipamiðlari var fenginn til að halda tölu, að ég held um tengsl heilbrigðisstétta og businessmanna, en það er ekki til umfjöllunar hér, heldur þessi saga sem mér er í fersku minni, þó ég hafi vart verið meir en 12 ára þegar hún gerðist.

Ráðstefunni lauk með Gala dinner í Hótel Valhöll á Þingvöllum. Allir áttu að mæta prúðbúnir, konurnar í síðum kjólum og karlarnir í smoking.  Þar sem faðir minn átti sumarbústað við vatnið var ákveðið að bjóða fernum hjónum af sitthverju þjóðerninu, ásamt þessum fjórum vinum foreldra minna og frúm þeirra til coctail drykkju í bústaðnum og sigla svo þaðan í hófið á tveim bátum. Mér er í fersku minni hversu prúðbúið og glæsilegt fólkið var, allt á besta aldri, og virtist svo lífsglatt og kátt.

Þar sem gestirnir voru svona á öðru eða þriðja glasi, sá ég mink skjótast á milli steina í fjöruborðinu og tilkynnti það hástöfum. Það var eins og sprengja hefði fallið í hópinn, því allir stukku upp til handa og fóta að elta dýrið sem hljóp allt hvað það mátti og endaði inni í bátaskúr. Ég stóð á veröndinni við bústaðinn og horfði á eftir öllu liðinu hverfa inn í skúrinn, og þar með var minkurinn króaður af.

Allt í einu heyrðist rosalegt hvæs og í kjölfarið hentist fólkið skrækjandi afturábak út úr skúnum og valt hvert um annað. En það var ekki gefist upp og allir skutust inn aftur til að þjarma að aumingja minknum sem gat ekkert gert annað en að hvæsa aftur, og aftur bakkaði hersingin, en eftir þriðja eða fjórða hvæs gáfust allir upp, enda held ég að enginn hafi vitað hvað hann átti að gera, annað en að verða bara skíthræddur við að láta hvæsa á sig.

Í endurminningunni er þetta eins og fyrsta flokks Fellini mynd. Allir þessir skrautlegu kjólar í sitthvorum litnum, skartgripirnir og svört smókingfötin með harðflibba, þverslaufu og ekki má gleyma lakkskónum, var orðið svo absúrd eftir að sýningin hófst. Einhverjir skóhælar brotnir, ásamt moldarstettum á pilsum jafnt sem buxum. Það var rennblaut möl fyrir utan skúrinn, enda uppsprettur þar undir, þannig að flestir hafa örugglega orðið hressilega blautir í fæturna.

Nú var andlitið aðeins farið að detta af sumum frúnna, en eftir að mestu blettirnir höfðu verið hreinsaðir úr fötunum, skómálum bjargað, nýtt andlit komið á, og svona eins og einn eða tveir kokkteilar til viðbótar komnir í magann var haldið í sjóferðina.

Hún gekk bara nokkuð vel, utan að annar báturinn varð bensínlaus á leiðinni, en varabrúsi var um borð og því ekkert mál að fylla á tankinn. Þegar komið var á grynningarnar við ós Öxarár var einhver snillingur sem reykti í vandræðum með að slökkva í rettunni og losa sig við stubbinn. Hann brá á það ráð að opna tóma bensínbrúsann og henda stubbnum í hann.

Eins og  flestir vita og þarf ekki læknismenntun til, sprakk brúsinn og það kviknaði í bátnum.  Farþegarnir  urðu bara einfaldlega að stökkva í vatnið með kolsvört andlit og skeifu á munninum.  Það var ekki djúpt þarna í ósnum, en ef þú ert í sparifötunum, góðglaður á leið í veislu, er óskastaðan e.t.v. ekki að standa í ísködu Þingvallavatni upp í háls

Nú upphófust skrækir miklir af fimm þjóðernum, en þar sem skrækir eru eins á öllum tungumálum voru engir erfiðleikar með tjáninguna. En þá gerðist hlutur sem ég hef aldrei getað botnað í. Konurnar byrjuðu að rífa af sér skartgripina og alla lausa muni og létu þá gossa í vatnið ásamt minkaslám og allskyns fíneríi sem fólkið klæddist . Ég held að mamma hafi pælt í því til dauðadags hvers vegna.

Blessuðu fólkinu var að lokum  bjargað á land, hríðskjálfandi, flutt á samkomustaðinn, ekki í  veisluna, nei, nei, upp á loft og flestallt háttað ofan í rúm. Þess má geta að vatnið er í mesta lagi 5° heitt.

Daginn eftir voru tveir frændur mínir um tvítugt fengnir til að fara á staðinn og kafa, í leit að týndum munum, og eftirtekjan þar var ekki aldeilis rýr. Skartgripir, fullt af þeim,  örugglega allir ekta, skór í bunkum, kven og karlveski, jafnvel sígarettuveski úr gulli, ásamt einni mikaslá, aðra hafði rekið á fjörur.

Þeir sem lentu í vatninu misstu af ballinu, en hinir skemmtu sér vel. En endurminningin um þetta allt, þ.e. hjá þeim sem lentu í vatninu var víst þannig að þeir höfðu aldrei lent í öðru eins ævintýri og skemmt sér svona vel.

En enginn minntist nokkurntímann á minkinn í skúrnum. Það geri ég afturámóti, því það verða ekki allir áhorfendur að bíómynd a la Fellini, löngu áður en þeir vita að Fellini er til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Frábær saga, og um hana þarf ekki fleiri orð!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.6.2011 kl. 17:58

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Segi það sama og Axel..ekki orð..bara veltist um af hlátri!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 3.6.2011 kl. 09:06

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Snilddar saga, þetta hefur verið gaman.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.6.2011 kl. 12:34

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Gaman jú svo sannarlega, sérstaklega í endurminningunni. Ég gerði mér eiginlega ekki grein fyrir hvað þetta var í raun "absurd" fyrr en ég var búin að skrifa það.

Bergljót Gunnarsdóttir, 4.6.2011 kl. 21:53

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mig minir að þessi uppákoma í Valhöllu á Þingvelli hafi ratað inn í fjölmiðla hérna um árið og hafi vakið óskipta athygli. Eða var það þegar minkur lék lausum hala á Hótel Borg og dansiball breyttist í hamlausa veiði þar sem innsta eðli margra einkum karlmanna braust út í allri sinni dýrð. Konur stukku upopo á borð og stóla meðan karlpeningurinn gekk berserksgang og linnti ekki látum fyrr en minkurinn var unninn.

Hvort dansiballið hélt áfram skal ósagt látið.

Góð saga er alltaf eftirminnileg. Og oft skiptir litlu máli hvort einhverju hafi verið kryddað í til að auðga frásagnargleðina. Aldrei má eyðilegga góða sögu einhverjum lítilsvirði efasemdum, saga á aldrei að gjalda fyrir þó eitthvað sé ekki sannleikanum samkvæmt.

Góðar stundir

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 5.6.2011 kl. 21:06

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ágæti Mosi! Það er engin hætta á að þessi frásögn hafi ruglast saman við uppákomu á Hótel Borg, eða neitt annað.  Þetta gerðist árið 1951 eða 1952 og ég var viðstödd fyrri hluta sögunnar, en heyrði restina bæði frá foreldrum mínum og frændum, sem höfðu heiðurinn af því að kafa eftir mununum. Gestabók sem fylgdi sumarbústaðnum skjalfesti þetta og,  og það mjög eftirminnilega með teikningum og ýmsu gríni sem þáttakendur sendu, til þess að hægt væri að líma í bókina.

En góð saga verður aldrei sögð nema af frásagnargleði, þar er ég sammála þér og sértaklega ef hún er dagsönn í öllum helstu atriðum.. 

Bergljót Gunnarsdóttir, 5.6.2011 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband