1.6.2011 | 19:21
Mont, ánægja og vorið góða grænt og hlýtt
Þetta blessað veður er nú búið að skemmta okkur með skini og skúrum á víxl okkur mörgum til yndis og ánægju, en vonandi ekki fleirum en mér til geðvonsku.
Loksins, loksins, eftir 36 ár komu menn til að leggja almennilegar útidyratröppur hérna að minni eldrauðu útidyrahurð. Ég horfði á þá með ánægjusvip leggja þessar líka fínu granittröppur sem ég lét sníða til eftir máli og tók með frá Kína þegar við komum heim í haust. Þeir hömuðust allan daginn, því auðvitað pössuðu þær ekki, þannig að saga varð allt til, og síðan var undirlagið, 80 eða 90 ára uppslitnar steintröppur, allt skakkt og bjagað.
Þetta eru tengdasynir mínir, báðir ljúfustu menn og þeir unnu þegjandi og hljóðalaust við að sníða þetta allt til þar til það passaði. Aftur og aftur urðu þeir að lyfta þesssum níðþungu hellum og færa milli staða, bera allskyns efni og flot undir endanlega límið, þar til allt passaði.
Það sem hélt þeim gangandi í lokin var tilhugsunin um stórmáltíð, en dætur mínar tvær voru inni að útbúa endalaus spjót að kínverskum hætti, með öllum réttu kryddunum og hinum ýmsu sósum sem eru alltaf til staðar í Kína, og síðan skyldi grilla allt á pallinum bak við húsið, um leið og þeir væru búnir með verkið.
Klukkan var orðin sjö og þeir voru virkilega farnir að skotra augunum, ekki að, heldur nánast í kringum húshornið, orðnir dauðsvangir og þreyttir, ég sá fram á að verkið myndi líklega ekki klárast þá um kvöldið, og rigningu spáð daginn eftir. Oft er þörf, en nú var nauðsyn. Ég fór inn, fann til þessi fínu tinstaup hellti í þau Grappa og bar þeim með viðhöfn ásamt Tigerbjór frá Singapore. Kínverskur er ekki seldur hérna. Þeir skelltu þessu í sig og hýrnuðu allir upp, og áfram var haldið.
Þegar sú gamla sá að þeir voru eitthvað að slappast aftur, var auðvitað hlaupið út með annan skammt og viti menn verkinu lauk kl. átta, og þá byrjaði að rigna. Það var allt í lagi, því tröppurnar voru komnar á sinn stað. Þá sá sú sem öllu ræður á heimilinu um að bera þeim einn verðlauna Grappa um leið og þeir settust niður á pallinum eftir dagsverkið , en það verður að segjast eins og er að líklega var það vegna þess að hana langaði bara í sjálfa.
Rigningin hafði engin áhrif á grillveisluna, sem var æðisleg og maturinn meiriháttar, því veröndin er með þaki að hluta. Ég fór södd, sæl og rallhálf í rúmið upp úr miðnætti, tröppurnar á sínum stað og allt í sómanum.
Þegar stytti upp tveim dögum seinna fúgaði ég á milli en það er mín sérgrein úr Mosaikinu . Þær eru orðnar svo fínar að það er álitamál hvort ég tími að nota þær.
Þegar sólin fór að skína aftur tók við málningar og viðgerðarvinna hér og þar á húsinu, og þá vann ég það AFREK að smíða hálfa svalahurð. Ég ætlaði að skafa og mála hana en hún er staðsett undir rennu sem er beint fyrir ofan. Rennan sú fylltist af laufi, líklega fyrir einhverjum árum, þannig að vatnið af þakinu hefur svettst á hurðina í öllum rigningum meðan enginn ath. að losa hana . Því fór sem fór, þegar ég beitti minni alkunnu verksnilld að henni, að það kom bara gat, þó er hún tvöföld með panel beggja vegna. Snillingurinn ég sagaði bara allt draslið burt og smíðaði að mestu nýjan neðrihluta, setti ný panelspjöld og gekk frá öllu. Rétt áðan fór síðan fyrsta umferð af málningu á hana, eldrauð, eins og á aðalhurðinni (líklega er ég bara svona mikill kommi).
Hann Siggi dóttursonur minn sem er snillingur í að mála, er að hjálpa mér við að gera allt hreint og snyrtilegt sem þarf að mála, svo sem handrið, húsgrunninn og dekkið á veröndinni. Annar ungur maður sem er líklega ömmu tengdasonur, eða eitthvað svoleiðis, málaði alla glugga og gerði rosa fínt í fyrra áður en við komum heim.
Þegar ég keypti húsið fyrir 36 árum og gerði það allt upp, var fólk eitthvað að tala um að timburhús þyrftu svo mikið viðhald að ég myndi fljótlega gefast upp á því. Það er engin uppgjöf í sjónmáli, en þetta eru bara vorverkin. Maður yrði fljótt leiður á að horfa bara á einhverja eign og þurfa aldrei að lyfta hendi til neins.
Þar til ég byrjaði á að vera stóran hluta ársins í Kína var þetta ekkert mál, en þrátt fyrir ýmsa krankleika sem fylgja því að vera orðinn sjötugur, og geta alveg þegið hjálp, skal ég ekki gefast upp á meðan einhver nennir að halda í stigana hjá þeirri gömlu og styðja hana síðan í hjólastólinn.
Alveg harðákveðin í að drepa alla úr leiðindum með frekari frásögnum af drykkjuskap, fúatimbri og fleiru sem til fellur á næstunni.
Lifið heil!.
Athugasemdir
Vey! Og við vorum með þeim fyrstu til að máta tröppurnar....aldeilis flottar og Kínverskar í þokkabót. Meira segja í vætunni, alveg öruggar með riflum og fíneríi..
Gaman að sjá nennuna við bloggið..Ég er eitthvað svo andlaus..Þarf að fara á ról líka.
Kveðja úr Heiðarbæ á Njarðargötuna.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 1.6.2011 kl. 20:16
Gaman að lesa þetta Bergljót mín, þetta hefur verið algjört æði, bæði með matinn og bjórinn og grappað hvað sem það nú er, og fjölskylduna þína, ég er alveg viss um að þetta er allt tipptopp hjá ykkur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.6.2011 kl. 20:35
Yndisleg færsla, til hamingju með nýju tröppurnar.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.6.2011 kl. 20:42
Þú ættir bara að máta þær fúgaðar, eða þannig
Þegar húsið hérna fékk viðurkenningu sem fallegasta einbýlishúsið árið 1976 var vinur okkar Jón Gunnar Árnason staddur í Vertshúsinu í Flatey, sem ég átti að hluta. Þá kom símskeyti sem var svohljóðandi; Kæra Njarðargata, hjartanlegar hamingjuóskir, Vertshúsið í Flatey.
Því segi ég Kæri Heiðarbær, hjartans árnaðaróskir, Þín Njarðargata.
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.6.2011 kl. 20:48
Ásthildur mín, Grappa er Ítalskt brennivín gert úr vínberjahrati eftir að það hefur verið skilið frá víninu. Dálítið hrátt, en mér líkar það. Tipp topp, nema hvað!
Takk Axel, ég er ennþá að líta út öðru hvoru til að dást að þeim! En það er nú töluvert í land að þessu ljúki, og þá verða vegfarendur bara að setja upp sólgleraugu til að fá ekki ofbirtu í augun.
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.6.2011 kl. 20:56
*****
hilmar jónsson, 1.6.2011 kl. 21:03
MMm hljómar samt vel
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.6.2011 kl. 00:30
Takk Hilmar. Ég er upp með mér yfir viðbrögðum ykkar, en þetta minnir mig þó örlítið á tvíbura sem voru í Landakoti í den. Þær voru svo miklar kennarasleikjur að þær fengu stundum 10.5 í einkunn.
Bergljót Gunnarsdóttir, 2.6.2011 kl. 01:22
Eiginlega veit ég ekki hver er kennarinn eða sleikjan, það skiptir engu máli, ég er alsæl með ykkur.
Bergljót Gunnarsdóttir, 2.6.2011 kl. 01:25
Gonatt...
hilmar jónsson, 2.6.2011 kl. 01:42
Skemmtileg færsla, til lukku með tröppurnar þínar. SKÁL :):)
Ásdís Sigurðardóttir, 2.6.2011 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.