7.5.2011 | 01:11
Harpan, Sinfónían, Ashkenazy, Víkingur, kór og einsöngvarar
Var að koma heim frá því að upplifa viburð sem er svo einstakur að aldrei gleymist.
Að koma inn í Hörpuna, þó aðeins vanti uppá að hún sé tilbúin, er eins og að koma inn í ævintýraland aritekturs á hæsta plani. Fannst mér hún nú falleg utanfrá, en að koma inn er ekki síðra. Ég tek undir með andstæðingum hússins sem kalla það monthöll, því ég er að springa úr monti.
Tónleikarnir byrjuðu eins og allir sem vilja vita, á verki Þorkels Sigurbjörnssonar, sem var ágætis byrjun, nokkuð þétt og gott og svolítið "funny."
Síðan kom Greig konsertinn þar sem Víkingur Ólafsson lék einleik með hljómsveitinni. Víkingur tekur verkið bara hreinlega með bravúr, og gerir að sínu, þannig að allt í einu lifnar það við, og verður spennandi aftur.
Þá kom að 9. Beethovens. Guð minn almáttugur, hún var svo dásamleg að ég gleymdi algerlega stund og stað. Ashkenazy stjórnaði þannig að guð almáttugur hlýtur að hafa haldið um aðra höndina á honum og tónskáldið um hina. Alveg frá fyrstu tónum, þegar risinn er að vakna við sólarupprás eins og einhver frómur maður sagði fyrir löngu, kom þessi fallegi andardráttur í flutninginn, sem ég hef aldrei heyrt nema hjá Furtwängler, og hann hélst allt verkið út.
Þegar cellóin og bassarnir leiddu inn lokakaflann, Óðinn til gleðinnar, hélt ég hreinlega að ég myndi kafna svo fallegt var það.
Kórinn var góður og einsöngvararnir líka, en kórinn var samt betri. Skal tekið fram að þetta er mín upplifun hvað einsöngvarana snertir, heyrðist hreinlega ekki nógu vel í þeim upp á 3ja pall þar sem ég sat, en skánaði þó þegar ég teygði mig eins langt fram og ég gat.
Nú ætla ég bara að skella mér í draumalandið og svífa á æðri vængjum þangað."
Athugasemdir
Skemmtilega skrifað hjá þér, Reykjavíkurmær (eins og þú kallar þig).
Til hamingju með upplifunina - það verður víst eitthvað lengra í mína.
Og takk fyrir innleggin á mína vefsíðu um Hörpu.
Jón Valur Jensson, 7.5.2011 kl. 15:49
Ég gleðst innilega í hjarta mínu með öllum sem fagna húsinu, þó vissar efasemdir sæki að mér varðandi fjárhagshliðina á komandi árum.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.5.2011 kl. 22:15
Takk fyrir tilskrifið báðir tveir.
Jón Valur, ég vona svo sannarlega að þín upplifun verði ekki verri en mín þegar þar að kemur. Það er ekki nóg með hversu stílhreint og fallegt húsið er að innan, það er jafnfallegt að horfa út úr því. Tónlistin var guðdómleg, en mikið væri nú flott ef það væri hægt að fella niður eins og fimmtán til tuttugu stöðugildi einhversstaðar og bæta þeim við stöðugildi hljómsveitarinnar. Eins vel gert og þetta var, vantar bara aðeins stærri hljómsveit.
Ætla ekki að bæta meiru við það, því mér er víst gjarnt að gera allt vitlaust hérna á blogginu.
Axel, ég deili með þér þessum áhyggjum af fjáhagslegri afkomu hússins, en sé þó stóra von í að þetta gangi vel, þegar svona vel er lagt af stað. Bíðum eftir opnunarhátíðinn sjálfri og því sem kemur í kjölfarið. Þegar allar tegundir tónlistar fá að njóta sín, hvað sem sú tónlist heitir, svo sem rokk, jazz o.s.frv. og nýting hússins kemst í hámark er fyrst hægt að sjá hvernig þetta virkar allt. Síðan koma ráðstefnurnar og allt sem þeim fylgir.
Steinunn Birna sem er forstöðumaður hússins, sagði í sjónvarpsviðtali nýlega að það væri enginn vafi á að reksturinn myndi standa undir sér ef svo fer sem horfir. Þá eru auðvitað afskr. af húsinu sjálfu eftir, eins ríkissjóði og öllu heila dótinu, nánast hvaða nafni sem það nefnist.
Ég hef tekið þá afstöðu að reyna að vera bara bjartsýn og hætta að hafa allt á hornum mér, vona það besta á öllum vígstöðvum. Það er léttara og skilar meiri árangri að vera bjartsýnn að mínu mati. Svo verðum við bara öll að vona það besta.
Bergljót Gunnarsdóttir, 8.5.2011 kl. 01:16
Vel svarað. Takk!
Jón Valur Jensson, 9.5.2011 kl. 02:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.