Ja hérna hér

 

Ég fékk aldrei þessu vant alveg bráðsnjalla hugmynd að nýju bloggi, eða réttara sagt frásögn sem mér fannst svo upplagt að deila með öðrum, að ég settist við tölvuna, núna löngu eftir miðnætti til að koma þessum sannindum á prent.

Þegar ég opnaði síðuna, blasti við mér að að ég var búin að gleyma mínu nýja, langa og flotta lykilorði. Jú, jú þetta er auðvelt öllu venjulegu fólki, en ég var bæði búin að gleyma og týna því. Bað því um nýtt,  sem stóð svo sem ekki á, svona með því veseni sem því fylgir. En eftir þessa röskun, alveg tilbúin að birta landslýð frábærar hugsanir mínar, var "issuið" bara týnt og kollurinn alveg gjörsamlega tómur, það er svo sem ekki við neinn að sakast, hann er það oftast.

En þetta minnir mig á þegar yngsta dóttir mín, barn að aldri, var svo södd að hún gat ekki með nokkru móti klárað matinn sinn. Ég spurði, nú, þú hefur þá enga lyst á ísnum sem er í eftirmat? Mamma mín var svarið, matarhólfið er  fullt, en íshólfið alveg galtómt.  Það er allavega gott að vita að krakkinn, sem nú er fliott kona, var og er bara ansi klár.

Nú líður að páskum, sem ég get upplýst um að eru fyrsta sunnudag, eftir fyrsta fullt tungl, eftir vorjafndægur. Hvernig ég öðlaðist þessa vitneskju er löngu gleymt, en þar sem það vefst fyrir mörgum hvers vegna páskana ber ekki alltaf upp á sama dag ársins gæti þessi skýring mín komið að haldi.

Svo er annað mál að ef þetta væri ekki hugsað svona, yrði skírdagur etv. á mánudegi, föstudagurinn langi á þriðjudegi o.s.frv. Hætt er við að mörgum fyndist undarlegt að hafa páskadag á fimmtudegi, þó auðvitað myndi það lengja páskafríð á stundumi. Þá kæmi annar í páskum á föstudegi og svo helgin í kjölfarið.
 
En þar myndu krosstré bregðast svo sem önnur tré, því þá kæmi það sama upp á og á jólum, að þeir yrðu annaðhvort allt of langir, eða alltof stuttir.

Ég man varla eftri þeim jólum sem allir hafa verið ánægðir með, ýmist alltof stutt eða alltof löng. Páskarnir, þessi flökkukind eru alltaf á sínum stað, eða réttara sagt dögum, þó dagsetningarnar breytist. Mér virðist það eina sem við gætum gert til að breyta þessu páskaflakki væri bara hreinlega að skjóta tunglið niður. Það á ekkert með að vera fullt á þeim tímum sem okkur henta ekki í kringum vorjafndægur. Að vísu byði ég ekki í afleiðingarnar.

Held ég hætti þessu bulli og komi mér í háttinn, en þessi frábæra hugmynd sem ég fékk, held ég að sé glötuð að eilífu.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

"....en íshólfið er alveg tómt". Þau eru dásamleg blessuð börnin og mörg gullkornin sem frá þeim koma.

Ég kannast við þessa minnisþurrð, þetta kom fyrir mig líka, ég hafði skrifað þetta líka fína blogg, eftir yfirlestur nokkrum sinnum var ég á því að það væri tær snilld og ekkert minna. En þegar ég ætlaði að færa það úr ritvinnsluforritinu yfir á bloggið ýtti ég óvart á einhverja tvo takka samtímis...og bloggið hvarf, ekki bara úr tölvunni heldur úr höfðinu á mér líka. Því þegar ég ætlaði að endurskrifa bloggið mundi ég ekki stafkrók úr því. Það kom aldrei aftur.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.4.2011 kl. 09:37

2 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Þetta er að koma æ oftar fyrir mann, er þetta ekki bara eðlileg elli hrörnun sem maður vill ekki viðurkenna fyrir sjálfum sér? Ég var staddur í Reykjavík um daginn, ég þurfti að komast í einkabankann en hafði gleymt auðkennislyklinum heima. Ég ætlaði þá að fara SMS leiðina, en gat ekki með nokkru móti munað notanda númerið á símanum og því síður puk númer. En þetta bjargaðist nú allt saman. Þetta með íshólfið var frábært hjá henni. Eigið þið góða páska Bergljót og Axel. kv Bláskjár.

Eyjólfur G Svavarsson, 17.4.2011 kl. 10:44

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir það Bláskjár og sömuleiðis!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.4.2011 kl. 11:47

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

 Takk fyrir innlitið Axel og Bláskjár!

Það er virkileg huggun harmi gegn að það eru fleiri en ég sem tapa svona þræðinum, jafnvel þeim þræði sem tengdur er mögulegum meistararitsmíðum.

Tek undir óskir þínar um gleðilega páska Bláskjár.

Bergljót Gunnarsdóttir, 17.4.2011 kl. 17:33

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Bergljót mín það getur vel verið að frábæra sagan verði aldrei sögð, en þú gafst okkur samt fína sögu undir svefnin, eða réttara sagt í mínu tilfelli inn í daginn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.4.2011 kl. 09:24

6 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Alltaf jafngaman að kíkja hér inn:)

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 18.4.2011 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband