31.3.2011 | 23:13
Dugnaður?
Ég held ég sé duglegasta manneskja í heimi á ýmsum sviðum. Ég er alger hamhleypa til verka, þegar verkast vill, og þess utan oftar en ekki búin að gera hlutina áður en mér detta þeir í hug. Þannig gerðist það um árið að ég skellti skúffu af alefli á löppina á mér. Það stóð einhver plastpokaræfill upp úr henni, svo ég ákvað að ýta honum niður með tánum, en áður en mér tókst að lyfta löppinni upp aftur, skellti ég skúffunni af alefli, ergo, ég fótlama í viku.
Ég hef gengið fram á ystu nöf til að skoða mig betur um í Nauthólsvík, þar á ég við einhverjar klettasillur sem ganga fram fyrir ofan víkina. Auðvitað var holt undir snösinni, hún brast, og ég féll einhverja 6 -8 metra og lenti í grjóti, með þeim afleiðingum að ég þríbronaði á hrygg og tvisvar á sama á fæti. Það tók mig þrjá fallega sumarmánuði liggjandi á bakinu á spítala, þar sem ég mátti hvorki bylta mér eða setjast upp, og helti í eitt ár.
Endalaust hef ég brotið einhver bein, skorið mig illilega eða eitthvað viðlíka. Núna sit ég hérna illa tognuð á vinstri fæti og kemst varla áfram, utan þess að hinn fóturinn er svona ca. tvöfaldur, vegna innvortis blæðinga, og marið er á stærð við fótinn fyrir neðan hné.
Það kom hérna maður, nágranni að ég held, eitt kvöldið og tilkynnti að það hefði runnið vatn úr garðslöngunni í minnsta kosti sólarhring, og hvort ég vildi nú ekki stoppa ósómann, þetta væri farið að renna út um allt. Síðan hvarf hann á brott, en ég, rösk að vanda, hljóp af stað á bakvið hús, til að framkvæma þennan nauðsynlega verknað.
Það var kolamyrkur og ég sá ekki glóru. Mundi þess vegna ekki að daginn áður hafði verið staflað þarna trékössum með hvössum brúnum, níðþungum, svo ég bara hljóp á þá, og tókst á loft þegar ég lenti á fyrsta kassanum, þá fékk ég höggið sem orsakaði marið. Síðan hentist ég á annan kassa, með þeim afleiðingum að löppin beyglaðist einhverveginn út í loftið og tognaði "par excellence".
Þess vegna sit ég alveg brjáluð út í sjálfa mig fyrir að setja svona strik í reikninginn, þegar ég á að vera niðri í kjallara að ganga frá sýningunni sem ég ætla að opna eftir páska. Verst finnst mér að þetta er allt sjálfskaparvíti. Að vera svona fjári röskur er ekkert grín.
En ég sæi mig samt í anda, ganga að hlutunum af stakri ró, og framkvæma síðan, án þess að nokkur skapaður hlutur gerðist, nema nákvæmlega það sem ætti að gerast. Þá yrði ég nú hissa!
Athugasemdir
18000 kaloríur frá mér! Gangi þér allt í haginn, seinheppna en skemmtilega kona! Ég held að ég elski þig duggunarlítið!
Björn Birgisson, 1.4.2011 kl. 00:14
Takk, það er duggunarlítið gagnkvæmt!
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.4.2011 kl. 00:25
Æi, hvað þetta var sætt og vel þegið. Aldrei er ástinni og velvildinni ofaukið. Ég hlakka til sýningarinnar þinnar!
Bestu kveðjur, Björn
Björn Birgisson, 1.4.2011 kl. 00:36
Æ stelpan mín, þetta er svakalegur lestur. Sendi þér faðmlag og knús, flott myndinn hér efst. Þú ert frábær.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2011 kl. 11:47
Þú ert nú meiri hrakfalla-konan, en ég sendi þér alla mína orku og heilun því ekki má það verða að engin sýning verði.
Mundir þú núna reyna að vera stillt og gera eins og þér er sagt, en mikið skil ég þig vel kæra mín ég er nefnilega alveg eins, búin að framkvæma langt fram í tímann áður en ég veit af, enda fæ ég að heyra það stöðugt.
Knús í þitt hús
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 1.4.2011 kl. 11:58
Takk fyrir góðar óskir og kveðjur.
Myndin að ofan er af skál sem getur líka þjónað sem veggplatti 50x50 cm. og verður á sýningunni. Mér finnst ég eitthvað í ætt við hann þennan, þessa dagana.
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.4.2011 kl. 13:00
Góðan daginn hrakfallabálkur!
Ég kannast aðeins við svona:) Margir kalla það fljótfærni. Vorið 2002 rann ég á eldhúsgólfinu og sleit liðbönd..Var meira og minna löskuð það sem eftir var árs. Fékk m.a.s frí í vinnunni í nokkra mánuði til að jafna mig. Ég byrjaði um miðjan febrúar 2003 með því að koma í sex tíma aukavakt..á laugardegi..Vann hjá Flugleiðum í FLE. Ég var einnig umboðsmaður Moggans. Þá kom sunnudagsblaðið á laugardagseftirmiðdögum..Ég gerði það að vana að færa gamalli konu blaðið inn um dyrnar um helgar, því þá hafði hún opið. Annars var póstkassi fyrir neðan tröppur sem lágu til hennar. Ég létt í lund og orðin nokkuð góð að mínu mati hljóp upp og "datt" svo niður tröppurnar:) Bingó..Illa fótbrotin. Til að gera langa sögu stutta: Ég var í gifsi í sex vikur..Þegar ég hafði verið laus við það í mánuð gréri í öllu saman. Einhverjum pinnaþræl hafnaði líkaminn..og enn á skurðarborðið..Meðan allt þetta gekk yfir þyngdist mín kona og hnéð gaf sig..Það mikið að læknirinn setti það í gifs..OMG..ég datt og úlnliðsbraut mig í gifsinu!! Eftir þetta var útséð um að ég ynni á 12 tíma vöktum oftar. Ég var send í beinþéttimælingu..Þar kom í ljós að ég gæti allt eins verið 35 ára..Ég gæti talið meira af minniháttar dettum..en er þetta ekki nóg?? Þvílík flumbra sem ég er.. Mér veitir ekki af svona hlýju eins og frá nágranni minn Björn sendir þér:) Nei annars..Í dag er ég í nokkuð góðum málum, léttari á líkama og sál..Hlakka til að koma á sýninguna þína..helst á opnunardaginn.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 6.4.2011 kl. 15:52
Mikið er nú "gaman" að ég skuli ekki vera ein um þetta, ég ætla ekki að telja upp alla sjúkrasöguna, eða reyna að keppa við þig. Eins gott að við búum ekki saman, ég byði ekki í það! Alltaf á hausnum önnur hvor.
Hlakka til að sjá ykkur bloggvini mína á sýningunni, sendi boðskort til vonar og vara svo enginn gleymi. Hlakka alveg meiriháttar til að hitta þá sem koma.
Bergljót Gunnarsdóttir, 6.4.2011 kl. 20:24
Silla, eiegum við að kannast við nokkuð annað en að vera bara svona röskar?
Bergljót Gunnarsdóttir, 6.4.2011 kl. 20:58
Auðvitað erum við bara röskar..Meira að segja ofur-röskar..Hlakka til að mæta galvösk (rösk) á sýninguna þína 30.apríl..Lofa að fara varlega..Eru tröppur í Iðuhúsinu?
Bestu kveðjur.
Silla.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 6.4.2011 kl. 21:31
Rúllustigi !
Bergljót Gunnarsdóttir, 6.4.2011 kl. 22:59
Æi, stelpur mínar. Nota þetta tækifæri til að kveðja ykkur hér á bloggi. Þið eruð yndislegar og vegni ykkur sem best í öllu ykkar. Silla mín, kveðjur mínar til þín eru ekki síðri en til Bergljótar! Sjáumst kannski á Facebook, froðunni þeirri!
Björn Birgisson, 6.4.2011 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.