Enginn, neinn og buskinn

Eftir að hafa hlustað á þátt Unu Margrétar Jónsdóttur í Ríkisútvarpinu í dag þar sem hugtökin enginn og neinn voru aðalleikararnir, kemur ýmislegt upp í hugann. Þarna var lesið úr sögu eftir Heinesen um engan, flutt tónlist eftir Hróðmar Sigurbjörnsson um ekkert, þar sem Sverrir Guðjónsson  kontratenor söng þessa fallegu tónlist undurvel.

Þegar ekkert er að gerast eins og t.d. í málum almennings á Íslandi, í þinginu, og enginn ber ábyrgðina, þá er alveg greinilegt að ekki er neinn að vinna vinnuna sína af heilindum. Að bíða eftir að eitthvað gerist á þeim bæ er eins og að banka uppá hjá einhverjum og enginn kemur til dyra.
Þessir óskilgreindu tvíburar enginn og neinn eru álíka óútreiknanlegir og frændi þeirra buskinn. Buskinn er eins og þeir, fyrirbrigði sem ákaflega erfitt er að skilgreina. Hann er þarna einhversstaðar, og enginn veit um stærð hans eða staðsetningu, samt er þjóðareign Íslendinga stödd einhversstaðar í honum og enginn hefur aðgang að nema þeir sem námu hana á brott.

Hlutir og ýmislegt annað hefur fokið út í buskann alveg frá því ég man eftir mér og mikið var ég forvitin sem barn  um það fyrirbrigði, en ég gekk að því sem vísu að hann væri fullur af gulli og gersemum eins og í ævintýrunum. Sonur minn, þá smástrákur spurði ömmu sína einu sinni, Hversu stór er buskinn amma? Þegar hún svaraði að hann væri býsna stór sagðist hann ætla að bjóða henni þangað þegar hann yrði stærri. 

En í buskanum er enginn og og ekki neinn veit hvar hann er, nema etv. nokkrir útrásarvíkingar og bankaforkólfar sem eru auk þess svo heppnir að hafa staðsett buskann og hafa þar lyklavöld. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er og ekki neinn þeirra þessara "fyrirmenna" fortíðarinnar, enginn þeirra, veit nema buskinn geti bara fokið, sprungið eða horfið, og hvar verða þeir þá staddir þegar fínu fötin þeirra fara að slitna. Það veit enginn, nei ekki neinn.
Mér að ósekju mætti gjarnan senda Icesave og jafnvel ESB út í buskann og kæmi þá mögulega vel á vonda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott færsla.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2011 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband