Fótbolti, snjór og smá geðvonska

Nú er spennuþrungið andrúmsloft  á heimilinu. Leikur Arsenal og Barcelona í Evrópukeppninni mun hefjast innan skamms. Karlinn búinn að breiða úr sér fyrir framan sjónnvarpið, en ég fremur ókát, enda farin að hlakka til þegar fótboltinn hættir í vor og maður fær að vita hvað er í sjónvarpinu. Mér finnst fótbolti skemmtilegur í hófi, þekki leikreglur og get alveg gleymt mér yfir góðum leik, en fyrr má nú rota en dauðrota. Mitt lið er Liverpool en sá sem situr á sófanum er ARSENAL maður.

Þetta gerir að vísu ekki svo mikið til þessa dagana, því ég vinn frá morgni til síðkvölds við að ljúka því sem fer á sýninguna mína, en hún hefst 30. apríl og verður í Iðuhúsinu við Lækjargötu -  2. hæð. Þú lesandi minn ert velkominn á opnunina kl. 15.00, eða einhvern annan dag. Sýningin mun standa í mánuð og verður opin frá kl. 10 - 22.

Mikið er yndislegt að fá allan þennan snjó, allt verður svo bjart og hreint. Snjómoksturinn setur að vísu smástrik í reikninginn, en ég get vel mokað það mesta og þjappað svo innkeyrsluna með bílnum, þegar ekki hefur náð að blotna neitt í honum.

Þegar ég var krakki, var nánast engin bílaumferð og krakkarnir í hverfinu höfðu Njarðargötuna til leiks og það var nú heldur betur notað þegar snjóaði, allir á sleðum eða skíðum og renndu sér á fleygiferð. Ef hraðinn var nægur gátum við rennt okkur alla leið niður í Vatnsmýrina yfir Hringbraut. Ég sæi einhvern fyrir mér reyna það í dag í öllu umferðarkraðakinu. Maður slyppi varla skár en að lenda í 10 gíra spítthjólastól eins og Fatlafól Megasar og Bubba um árið.

Ekki sakaði þegar bandarískir hertrukkar óku niður götuna, lúshægt og fleygðu út einhverjum ókjörum af appelsínum og sælgæti, en ávextir voru ófáanlegair í þá daga og sælgæti fremur sjaldgæft.

Ég sakna þess að sjá ekki krakka að leik í snjónum inni í borginni. Stórar og litlar ýtur ryðja öllu upp fyrir bílaumferðina og skilja eftir háar hrúgur sem hefta mjög alla umferð gangandi fólks og krakka sem vildu njóta snjósins. Svo víla þeir sér ekki við að blokkera allar innkeyrslur og skilja eftir háa hryggi á götunum svo bílarnir sitja fastir í bílastæðunum.

Það er voða gott að moka svona vel og leyfa bílunum að hafa forgang, en því miður eru flestir slíkir lokaðir bak við moksturinn og komast ekki fet. Þegar maður er kominn yfir sjötugt er ekkert sérlega gaman að koma út þegar búið er að skafa allt í himinháa frosna hryggi fyrir framan innkeyrsluna. En þá er bara á bíta á jaxlinn og hábölva þeim í kjölfarið. Það er ekkert hljóðleysi á þeim bæ.

Leikurinn að byrja og ég ætla að snúa mér að honum áður en ég læt mig hverfa niður á vinnustofuna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sem betur fer er ég algjörlega laus við fót- og handbolta áhuga, og maðurinn minn líka.  En ég get vel skilið að það sé erfitt fyrir gangandi að ferðast um í svona snjó.  Hér eru allar gagnstéttar mokaðar um leið.  Við búum við besta snjómokstur á Íslandi held ég.  Vonandi naustu boltaleiksins.  Ég kem á sýninguna ef ég verð í bænum um þetta leyti.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.3.2011 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband