6.3.2011 | 12:44
Kettir
Þetta er hún Kisa sem ég átti í Kína, en nú hefur fengið nýja mömmu.
Hef tekið eftir því eftir að hafa verið lengi í burtu, með hléum þó, að það eru nánast engir kettir á ferli í hverfinu lengur. Að vissu leyti er ég ákaflega fegin, en samt er ég að hinu leytinu með töluverðan söknuð í huga. Ég hef oft átt ketti sjálf, sem hafa verið mikill ánægjuauki og gert tilveruna skemmtilegri.
Það sem ég ætla þó að tala um núna, eru kettirnir sem áttu leið um hverfið á sama tíma og ég, og heimsóttu mig jafnvel, en alltaf þó óboðnir. Þetta voru kisur af öllum toga, kurteisir og vel aldir heimiliskettir í öllum litum og af ýmsum skapgerðum, einnig villikettir sem skutust á milli húsa, og rétt litu á mann í forbífarten, svona rétt til að ath. hvort þeim stafaði hætta af þessari mannveru sem átti leið hjá. Innanum var einn og einn eðalköttur af ýmsu kyni, nokkrum sinnum Síamskettir, svo og skógarkettir greinlilegir, kafloðnir og minntu sumir á litla kjölturakka, sem mér finnst alltaf eins og einhver afstyrmi í hundaheimi.
Það fyrsta sem mér kemur í hug, er mikið krafs og mjálf við útihurðina einn veturinn, í 10° frosti og fjúki. Ég fór fram til að ath. hverju sætti, og viti menn á hurðarhúninum sat mjálmandi köttur. Greyið hálfhékk þarna hríðskjálfandi og greinilega töluvert af honum dregið. Honum var kippt inn og vafinn í stórt ullarteppi, síðan var hringt í Kattholt, sem svaraði ekki, þannig að leitin að eiganda varð að bíða.
Þessi köttur dvaldi hjá okkur í þrjá daga, vildi ekkert nema nautasteik og rækjur, leit hvorki við kattamat eða venjulegum heimilisfiski, en lét fara vel um sig. Hann kom okkur algerlega á óvart, að því leyti að ef hann var spurður, svaraði hann alveg greinilega hvort þetta var honum þóknanlegt, já var míá, en nei míjaaaíá með miklu þyngri tón, og það fór aldrei á milli mála. Hann vildi og helst sofa uppi í rúmi hjá mér, sem hann fékk ekki.
Þegar eigandinn loksins fannst, bjó hann í Hafnarfirði, og hafði gengið um allt til að leita að dýrinu sem hann var orðinn fullviss um að hefði frosið í hel. Við höfðum þá bæði náð sambandi við Kattholt sem leiddi okkur saman. Eigandinn trúði því ekki að hann gæti hafa komist til Reykjavíkur í þessum hörkugaddi og væri ennþá á lífi. Ég er sannfærð um að einhver hefur tekið hann upp í bíl og sleppt honum svo hér í bænum.
Jæja, eigandinn kom, leit á dýrið og sagði það líta alveg eins út og sinn köttur, en fannst einkennilegt að kisi virtist ekki þekkja hann, og sýndi engan vilja til að vera hjá honum. Við spjölluðum um þetta fram og aftur og þá spurði ég hvort hann hefði orðið var við að kötturinn svaraði spurningum. Ég hef sjaldan séð ánægðari mann, en þá. Auðvitað sagði hann, það á við um mat, og svo hvort hann vilji fara út til að gera þarfir sínar. Kötturinn fylgdist vel með, orðinn tvístígandi þó, og var greinilega að gera upp við sig hvort hann vildi fara heim í gamla góða farið, eða halda áfram að borða nautakjöt og rækjur í öll mál. Þegar eigandinn tók hann svo upp, strauk honum blíðlega og sagði, viltu koma heim og borða kvöldmatinn þinn sagði kvikindið míá.
Ýmsir villikettir hafa komið hér við sögu, aðallega þó til að stökkva upp á svalirnar og stela sér mat sem hefur verið settur út um stundarsakir, til að kæla, eða geyma yfir nótt þegar þröngt hefur verið í ísskápnum um jól og páska. Verði þeim að góðu, enda verða vondir einhversstaðar að fá mat eins og aðrir.
Einu sinni kom ég heim og þá lá alveg gullfallegur eðal Síamsköttur á stofusófanum og lét fara vel um sig. Hún lá þarna eins og drottning, minnti helst á Kleopötru, í litbrigðum frá ljósbeige, upp í svart, og ljósblá augun, með svartri umgerð, eins og hún væri nýbúin að mála sig, mændu á mig meðan hún var að ákveða að nú ætlaði hún að taka völdin. Hún var eins og hönnuð fyrir sófann, í sömu litum, en sófinn var ljósbeige með svörtum púðum.
Það er alveg undarlegt með þessa ketti sem hafa tekið sér bólfestu hjá mér um stundarsakir, að þeir vilja engan almennan- eða kattarmat, bara rækjur, og nautakjöt. Þessi neitaði alveg stíft að fara af sófanum og hvæsti ef einhver ætlaði að fá sér sæti hjá henni, og rækjurnar fékk hún upp í sófann. Ég sæi mig í anda í gamla daga, leyfa börnunum mínum að borða í stofusófanum. Seint um kvöldið, eftir ca. átta klst. dvöl stökk vinkonan bara út um gluggannn og lét sig hverfa.
Næsta morgun var hún aftur komin á sófann og vældi frekjulega á mat. Í því heyrði ég konu sem býr hérna allnærri kalla Kleó, Kleó. Kötturinn reysti eyrun smástund, en hélt síðan áfram að væla. Ég fór út í glugga og spurði hvort hún væri að leita að Síamsketti. Hún hvað já við og sagðist ekkert skilja í skepnunni, hún hefði komið heim, pissað í kassann sinn og stokkið út aftur. Hún sagði kisu ekki vana að leita út fyrir heimilið, og brást harla glöð við þegar ég bauð henni innfyrir til að taka köttinn. Kisa aftur á móti sýndi engin viðbrögð við þessu ofbeldi, önnur en að senda mér þóttasvip, þessari konu sem neitaði félagsskap sannkallaðrar eðal kattaprinsessu. Stórmóðguð fór hún með eiganda sínum og sást aldrei aftur.
Þetta er að verða nokkuð langt, en eins og ég sagði, þá sakna ég allra þessar vina minna úr hverfinu, hvort sem þeir hafa spjallað við mig úti á götu og leyft mér að strjúka feldinn sinn, eða komið í heimsón og jafnvel ákveðið að setjast bara upp.
Athugasemdir
Skemmtileg kattahugvekja. Ég er nú hræddur um að ekki séu allir jafn ánægðir með að fá ketti í heimsókn til sín og taki svona vel á móti þeim, þegar þeim þóknast að kíkja í heimsókn.
Þá sjaldan að kettir líta inn til okkar, láta þeir sig hverfa umsvifalaust þegar þeir mæta heimilishundinum, sem þó vill bara leika við þá, en þeir hafa bara engan húmor fyrir hundaleikjum og skjótast beina leið til baka, sömu leið og þeir komu.
Axel Jóhann Axelsson, 6.3.2011 kl. 13:08
Hugljúf frásaga Beggó mín, mikið er hann sætur sá sem þú áttir í Kína.
Já dýrin gefa manni mikið, það er rétt hjá Axel að kettir eru ekki mjög hrifnir af kisum þó undatekning sé þar á, ég er með hund sem barnabörnin mín eiga en amma er að passa, síðan eru þær með kisu sem er bara inniköttur, þeir Neró og Yano eru ekki mjög hrifnir af hvor öðrum, en í þeirra tilfelli er það Yano (kisan) sem vill leika, en Neró lítur á Yano með vandlætingasvip.
Þeir verða hér báðir í sumar og vonandi verða þeir vinir.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 6.3.2011 kl. 17:24
Axel, takk fyrir innlitið. Ég átti einu sinni kött sem var svo vandur að virðingu sinni, að þegar dag nokkurn kom fólk í heimsókn með einskonar afbrigði af kínverskum kjölturakka, alveg ótrúlega ófrýnilegt kvikindi að mínu mati, stillti kötturinn sér bara upp fyrir framan hundsspottið og starði á það þar til voffi, sem hét Lilli, fór á taugum, vældi og lét öllum illum látum þar til eigendurnir sáu sér ekki annað fært en að fara með hann heim. Þegar þau gengu út fullyrði ég að ég sá köttinn brosa, bara fjandi ánægðan með sjálfan sig. Skal tekið fram að þessi köttur hét Hreggviður fantur, þannig að það var e.t.v. ekki á allra hunda færi að láta hann stara á sig.
Afur á móti kom seinna stór Labradorhundur í heimsókn ásamt eigendum sínum og þá var Hreggviður uppveðraður eins og snobbuð kerling, komin í heimsókn til einhverra stórmenna. Hann gerði allt til að koma hundinum til við sig, sem endaði með mikilli vináttu þessara tveggja dýra, svo aðdáunarvert var að fylgjast með, en hundurinn hafði alltaf stjórnina og Hreggviður hlýddi alveg skilyrðislaust, þessi líka prímadonna sem hann var, en vináttan stóð í mörg ár, eða þar til Hreggviður fór yfir móðuna miklu.
Milla Mín, Takk fyrir innlitið sömuleiðis. Er svolítið seint á ferðinni vegna þess að ég er búin að hamast eins og brjálæðingur í kjallaranum síðan í morgun, en þar er verkstæðið mitt, og var að koma upp.. Nú er allt að smella saman fyrir sýninguna, miklu fyrr en ég bjóst við og ég hætt að hafa áhyggjur af því að þurfa að sýna hálfauða veggi. Ég var eitthvað villuráfandi með sýningartímann, hélt að þetta byrjaði 28. april, en það er víst ekki fyrr en 30., en ég má byrja að hengja upp þ. 28. Vona að þú getir komið þrátt fyrir þessa töf, sem og aðrir bloggvinir mínir sem sjá sér fært að koma.
Ég á engin dýr í bili og ætla ekki að eignast fleiri, en maður gæti nú freistast til að fá sér fallegan kött í ellinni, en það er svo langt á hana að það er ekkert á dagskrá ennþá. Hunda dái ég, nema kjölturakka, en það þýðir ekkert að spá í hund nema maður sé fær um að ganga með þá daglega og allt það, sem er bara ekki á færi allra eldri borgara, sem eru þess utan húðlatir við göngutúra.
Bergljót Gunnarsdóttir, 7.3.2011 kl. 03:14
Alltaf gaman að lesa hjá þér Beggó mín. Að öllu forfallalausu verð ég fyrir sunnan þar til 8 mai svo ég mun koma á sýninguna.
Auðvitað færðu þér kisulóru í ellinni, annars er engin elli til bara aldur.
Knús til þín inn í góða viku
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 7.3.2011 kl. 07:52
Skemmtileg kattasaga. Ég hef átt marga ketti og verið heppinn með þá. Þann síðasta átti ég í 13 ár. Hann fæddist, ásamt þremur kettlingum öðrum, 4 dögum fyrir kjör Ólafs Ragnars í forsetaembættið ´96. Hann var alhvítur en hafði blett efst á höfðinu, sem var alveg eins og hárið á Ólafi Ragnari var á litinn. Hann fékk því bráðabirgðanafnið Ólafur Ragnar. Það átti að gefa hann eins og hina kettlingana en hann dagaði upp hjá okkur. Hann hélt nafninu þótt bletturinn á höfðinu hyrfi með tímanum.
Mikið sé ég eftir Ólafi vini mínum og margar sögurnar er hægt af honum að segja. Í næsta húsi við mig, þegar ég bjó í Reykjavík var stór Labrador hundur og oft tjóðraður á lóðinni fyrir framan húsið. Ólafur hafði það fyrir sið að fara daglega gegnum limgerðið yfir á lóðina hjá hundinum, stilla sér upp á ákveðnum stað á lóðinni og byrja að snyrta sig. Hann beið svo þar til hundurinn tók eftir honum, æddi geltandi að honum en stoppaði svona fet frá Ólafi þegar tjóðurbandið var á enda. Þar froðufelldi hundurinn af bræði í bandinu en Ólafur snyrti sig sem aldrei fyrr og lét sem hann sæi ekki hundinn.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 8.3.2011 kl. 18:31
Minnti þarna dálítið á þann sem hann hét í höfuðið á, finnst þér það ekki?
Bergljót Gunnarsdóttir, 13.3.2011 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.