Þjónusta, "þjónusta" og þjónusta

Uppgötvaði í gærmorgun þegar ég ætlaði að starta bílnum mínum, eftir að hafa hreinsað af honum snjóskaflana, hið undarlegasta hljóð sem ég hef aldrei heyrt áður í neinni af þeim bíldruslum sem ég hef átt um ævina, hvað þá nýlegum bílum. Það var ekkert í áttina að þessu gamla góða hih, hih, hih hljóði, þangað til allt rafmagn er búið, heldur kom eitt allsherjar skrækt brrrr,brrr, brrr, og það með málmhljóði, en það  var greinilega ekkert rafmagn að koma inn á gripinn þó nóg virtist af því, bæði sterk ljós o.s.videre.

Hringdi því í Ingvar Helgason í morgun til að spyrja hvort þeir gætu leiðbeint mér eitthvað um hvað skyldi nú bjargar verða mínum sóma. Maðurinn sem svaraði sagði strax og ég hafði sagt honum frá brrrinu, að rafgeymirinn væri að gefa sig og ég skyldi fá einhvern með startkapla til að koma honum í gang og fara síðan á  næsta stað sem seldi rafgeyma.

Ég hafði nú ekki mikla trú á þessu, en hann sagðist myndu taka bílinn eins og skot ef svo ólíklega til að þetta væri ekki meinið. Fékk því tengdasoninn, vopnaðan köplum, og viti menn bíllinn rauk í gang. Næsta skref var að gera tilraun til að finna einhverja rafgeymaþjónustu. Það var alltaf ein á bakvið Shell á Suðurlandsbraut, en þegar ég kom þangað var búið að fjarlægja húsið og þjónustan því eðlilega horfin.

Ég fór inn á bensínafgreiðsluna og eftir langa mæðu kom ung kona fram og spurði hvort hún gæti aðstaoðað. Já takk varð mér að svari, geturðu sagt mér hvað varð um rafgeymaþjónustuna sem var hér á bakvið húsið. Það er ekkert á bakvið húsið sagði þessi fróma kona, eins og það væri ekki auðsætt. Veistu hvort hún er ennþá starfandi og hvar?
Mennirnir eru allir farnir af planinu var svarið. Ég sagðist ekki hafa komið til að hitta þá, heldur væri ég að leita að rafgeymaþjónustunni. Mennirnir á planinu eru allir farnir heim, var svarið í annað sinn.

Ég var orðin hálf pirruð, enda klukkan að verða sex og þá lokar allt svona, svo mér varð á að spyrja hvort hún væri með rafgeyma til sölu. Hvernig á ég að vita það var svarið. Ég gafst upp og ók sem leið lá inn í Álfheimastöð OLÍS. Spurði mann sem þar var á planinu, og hefur greinilega lengri vinnudag heldur en þeir hjá Skeljungi, hvort þeir seldu rafgeyma. Eitthvað er nú til að þeim sagði hann mjög viðmótsþýður, opnaði húddið og leit á geyminn sem var sem ekki var til, uppseldur í þessari stærð.

Þessi maður sem var ennþá í vinnunni sagði því næst, flýttu þér upp í Vegmúla, það er ennþá opið á smurverkstæðinu og þeir eru með allt sem vantar í bíla og er ekki sérhæft fyrir einhverjar sérstakar tegundir. Hann kvaddi með virktum, þakkaði mér fyrir komuna og vonaðist til að ég fengi úrlausn mála. Það lá við að ég gleymdi að gæta varúðar því mér lá svo á að ná fyrir sex, en stóðst þó mátið, æfði mig í staðinn á leiðinni að setja upp bænarsvip, ef ég skyldi koma svo sem mínútu of seint.

Tvær mín fyrir sex, renndi mín í hlað stökk út við smurþjónustuna og spurði um þennan nauðsynlega hlut, sem verður bara að vera í lagi á morgnana. Svarið var jú, jú, eigum við ekki að skella honum í.  Mér fannst maðurinn engli líkastur. Geyminum var skellt í, vatn sett á rúðuspreyið og ég var komin út efitr 10 mín. Kvödd með takk sömuleiðis og fallegu brosi, eftir ég þakkaði fyrir og spurði manninn hvort ég gæti ekki bara sótt um vinnu hjá honum, því ég var skítugri en hann á höndunum eftir allt stússið.

Eitt gott hafði þetta allt í för með sér. Ég þarf ekkert að pæla í hvert ég fer næst þegar mig vantar bensín eða aðra þjónustu. Olís í Álfheimum og Vegmúla.  En Skeljungur má vara sig. Það væri e.t.v. ráð að hafa svona einn mann eða svo á planinu, ef þetta á að ganga samkvæmt plani hjá þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband