Líður að nýju ári

 

Nú er árið  að verða liðið, með allri sinni gleði og sorg, svona eftir því hver á í hlut. Sem betur fer  upplifðu ekki allir sorgaratburði, en ég held ég geti fullyrt að að allir hafi átt einhverjar gleðistundir og við flestöll margar. Þannig er bara gangur lífsins og enginn fær honum breytt hvort sem okkur líkar betur eða ver.

Það að gleðjast hefur reynst mörgum erfitt núna þegar ástandið er eins og það er í samfélaginu. Að nokkur maður í ríkisstjórninni geti yfirleitt brosað, eins mikla gagnrýni og hún hefur fengið, með réttu eða röngu, kalla ég bara stórkostlegan karakter. Ég væri uppi í rúmi, undir sæng, bara hágrátandi af örvæntingu.

Stjórnarandstaðan getur vel við unað, hún getur bara glott áfram og sett út á allt, án þess að koma með neinar raunhæfar tillögur til úrbóta, vonast bara til að fá kosningar, vinna þær, og komast að sem fyrst. Ef svo verður vona ég að þeir beri gæfu til að ræsa atvinnulífið af fullum krafti. Annars skil ég illa hvernig hún getur verið svona ánægð með sig, það var jú hún sem var bæði hölt og blind í aðdraganda hrunsins og átti stóran þátt í að svo fór sem fór.

Ég mun persónulega aldrei kjósa flokkana, sem þegar við stjórnvölinn, bókstafalega gáfu vildarvinum sínum sameiginlegar eigur þjóðarinnar og litu svo undan þegar nýju eigendurnir með þjóðareignina í höndunum notuðu hana til að svindla og svíkja restina út úr þjóðinni, bókstaflega allt sem hægt var, með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Ég var nánast fædd og uppalin í Sjálfstæðisflokknum, var dyggur stuðningsmaður hans í mörg ár, en í dag fyndist  mér  jaðra við landráð að leggja honum lið.  Við búum í lýðfrjálsu landi og sem betur fer er fólki frjálst að hafa eigin sjálfstæðar skoðanir og kjósa eftir sannfæringu sinni.
 
Hvað dindilinn sem sem kennir sig við framsókn og sat í stjórn með  flokknum varðar, vona ég að hann þurrkist endanlega út  í næstu kosningum. Það er synd og skömm að sjá hvernig nútíminn hefur farið með flokka þeirra Ólafs Thors og Hriflu Jónasar. Hvað hefur gerst síðan þeir voru við völd?  Því er auðsvarað, þá hafði lítil sem engin spilling grafið um sig í samfélaginu, svo einfalt er það. Því má svo bæta við að stjórnmálaflokkar eru hvorki betri eða verri en fólkið sem kýs þá.


Því miður virðist svo að spilling sem nær að blómstra sé eins og arfi, en eins og allir vita er erfitt að uppræta hann, nema þá helst með eitri og því erfitt að stöðva þessa botnlausu græðgi sem greip um sig og hrjáir víst enn allmarga.  

Mín einlæga von er sú að bráðum taki við betri tíð með blóm í haga, ekkert ESB, og almenna gleði megi sjá í andlitum allra íbúa þessa hrjáða lands, þó ég sjái það því miður ekki innan seilingar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið vildi ég að þú hefðir rétt fyrir þér Bergljót mín, er annars algjörlega sammála pistlinum þínum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.12.2010 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband