Ja hérna hér

Bloggvinur minn góður Axel J Axelsson tjáði mér einhverntímann að hann hefðir orðið bloggari þegar hann hætti að reykja, Í staðinn fyrir að fá sér sigarettu hefði hann bara hlaupið í tölvuna og bloggað.

Ég var á þeim tímapunkti stórreykingamanneskja, búsett í Kína, þar sem sígarettupakkinn kostaði tæpl. 100 kr. ísl. Stundum þegar mikið lá við í vinnunni voru allt að tveir pakkar svældir á dag af mikilli áfergju.

Mér fannst Axel alger snillingur að fá útrás fyrir sigarettulöngunina á þennan hátt og ákvað að hætta þegar ég kæmi heim til Íslands, sem ég og gerði, en það hefur verið drifkrafturinn að flestum bloggskrifum sl. tvo mánuði. Innihaldið kemur þó reykingaleysinu ekki neitt við þar til nú. Þetta virkar svo vel að ég er alveg steinhissa, engin hjálparmeðul, ekki neitt.

En einhvernveginn er þó svo að maður hittir alltaf sjálfan sig fyrir. Í gærkvöldi fór ég að verða eitthvað skrítinn í höfðinu, leist ekkert á blikuna þegar ég gat varla staðið í lappirnar fyrir svima og ákvað að líta við á bráðamóttökunni á Borgarspítalanum og fá staðfestingu á að það amaði ekkert að mér. Mér var tekið opnum örmum, en af mikilli formfestu þó. Áður en ég vissi af var búið setja mig í hjatralínurit, taka blóðsýni, mæla blóðsykur, blóðþrýsting og setja mig í höfuðsneiðmyndatöku.

Eftir að hafa beðið í par klst. var mér sagt að best yrði að ég myndi gista þarna til þess að taugalæknir gæti rannsakað hræið semma í morgun. Niðurstaða hans í bili er að líklegast er að ég sé með lítinn blóðtappa þarna uppi. Síðan var ákveðið að ég skyldi dvelja á staðnum yfir helgina og fara svo í frekari rannsóknir strax eftir helgi.

Þetta leist mér ekkert á og samdist því um að ég færi heim og tæki því rólega þangað til hringt yrði í mig og ég látin vita um frekari aðgerðir.

Þegar ég nefndi við lækninn, unga og falleg konu, sem sagði eitthvað í þá veruna að svona tappar gætu myndast við reykingar og svo losnuðu svo þeir þegar maður hætti, að líklega væri  best að byrja aftur að reykja, og síifla kerfið upp á nýtt, jesúsaði hún sig og sagði þvert nei. Síðan nefndi hún að það þyrfti að koma í veg fyrir að svona smá tappar kæmu aftur og aftur. 

Þar sem ég er orðin forfallin í blogginu og tími alls ekki að hætta, er ég að hugsa um að taka þessu   rólega hérna heima um helgina, láta mér líða vel, reyklausri, taka hjartamagylið sem mér var sagt að taka  og auðvitað blogga, innandyra. Mér líst ekkert á þá hugmynd að sitja með tölvuna úti á svölum í hörkugaddi, sígarettan í munnvikinu og gera hvað? 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Nýtt slagorð: Bloggað til betri heilsu! Eigðu góða reyklausa helgi. Ég svæli kannski eina fyrir þig!

Björn Birgisson, 17.12.2010 kl. 18:33

2 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Ég var einmitt að koma inn úr kuldanum eftir að hafa þrælað mér út í búð að kaupa fleiri nagla. Gangi þér vel.

Hörður Sigurðsson Diego, 17.12.2010 kl. 18:44

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Athyglisvert!  Kinka þrisvar kolli til þín,  1) hætta að reykja 2) láta tékka á svimanum strax 3)blogga

Hætti fyrir næstum 4 mánuðum, fór í svona rita um daginn bara til tékks og ..... blogga stundum!  ;)

Góðan bata kæra.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 17.12.2010 kl. 22:29

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott hjá þér mín kæra.  Svona eiga alvöru konur að vera.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.12.2010 kl. 23:16

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Vonandi rætist úr þessu hjá þér kæra vinkona.

Ekki þarf ég að kvarta undan reykingarsjúkdómum, enda aldrei reykt. En hver hefur sinn djöful að draga, mitt vandamál er hjartsláttaróregla sem hefur leitt til fyrirvaralausra innlagna á Landsspítalann í "endurræsingu" með rafstuði. Þetta hefur gerst oftar en ég hef tölu á, síðast á mánudaginn í síðustu viku. Eins og ég var skíthræddur í fyrsta sinn sem þetta gerðist þá er þetta varla merkilegra í dag, fyrir mig, en en að kaupa lottómiða, ef ekki væri allt þetta umstang og vesen sem þessu óhjákvæmilega fylgir.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.12.2010 kl. 00:42

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Gangi þér vel í reykleysinu, ein fíkn getur tekð við af annari og bloggið er eflaust heilsusamlegra en tóbakið! ;-) .. Vonandi rætist nú á sem bestan máta með þennan blóðtappa - og passaðu upp á þig!

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.12.2010 kl. 01:58

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

 Takk öll, takk kærlega. Mikið er gott að fá svona góð og vinsamleg viðbrögð.

Reykleysið er ekkert að hrjá mig neitt illilega, ég geri bara eins og Axel Jóhann, ég skrepp í tölvuna og blogga, en ef það nægir ekki til frðþægingar fer ég bara inn á einhverja bloggsíðuna og ríf stólpakjaft finnist mér þess þörf  , sem er því miður æði oft, og verð síðan alveg snarmóðguð ef ég fæ svipuð viðbrögð á móti.

En svona er bara tilveran, full af allskyns mótsögnum, skrítilegheitum, gleði og sorg og þetta þurfum við öll að takast á við  daglega, allt lífið , stundum meðvitað, stundum ekki.

Axel! Ég mæli með, og gjóa augunum upp til þess sem þar er og bið, heyrðu  er ekki komið að honum, , að hann fái vinning,  þú veist í Lottóinu, vinning sem er einn með öllu og algerlega án umstangs. Þetta er gert hrokalaust og af auðmýkt af minni hálfu.

Þetta eru bestu og fallegustu viðbrögðin sem ég hef fengið hér á blogginu hingað til, öll með tölu. TAKK!

Bergljót Gunnarsdóttir, 18.12.2010 kl. 03:41

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

 "fer ég bara inn á einhverja bloggsíðuna og ríf stólpakjaft finnist mér þess þörf  , sem er því miður æði oft, og verð síðan alveg snarmóðguð ef ég fæ svipuð viðbrögð á móti"."

Góðan dag Bergljót, það sem þú segir þarna held ég að segi svo margt um þig, þ.e.a.s. að þú getir litið í eigin barm og gert grín að sjálfri þér. Mér finnst það flottur eiginleiki og sýna karakterstyrk.

Ég held að þegar kemur að heilsu fólks séum við öll bræður og systur - og þó að við rífumst pinku um menn og málefni eigum við að geta verið það líka,  það er kúnstin við að virða manneskjuna þó að við þurfum ekki alltaf að virða skoðanir hennar, þegar við erum ósammála þeim. 

Ítreka góðar óskir í þinn garð.

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.12.2010 kl. 08:50

9 Smámynd: Ragnheiður

hahaha já

hvað er þetta með okkur moggabloggara ? hættum öll að reykja ..ég er að verða komin í 2 ár en hef sloppið við einhverja tappa á ferð og flugi - sem betur fer.

Stattu þig kona !

Ragnheiður , 18.12.2010 kl. 13:53

10 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Ég verð að fara að hætta. Nú þarf ég aftur að skrönglast út í búð eftir fleiri nöglum. Þvílík sóun.

Hörður Sigurðsson Diego, 18.12.2010 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband