1.11.2010 | 11:19
Hvernig er að vera í Kína VIII
Eitt hugtak virðist ekki vera til í Kína, en það er lofthræðsla. Ég hlýt að hafa óvenjulega sterkt hjarta að horfa á þessa lofthræðluleysishegðun fólks án þess að detta bara niður dauð af skelfingu.
Við bjuggum á þrettándu hæð en ræstikonan okkar, vílaði sér ekki við að fara út um stofuglugann (alveg) og standa þar á ca. 5 cm breiðri álímdri graníthellu, alveg flughálli, og halda sér lauslega í gluggapóstinn. Þarna teygði hún sig eins langt og hún náði og hamaðist mjög við þvottinn. Í fyrsta skipti sem hún gerði þetta, brá mér alveg rosalega og augsýnilega og þá tók hún bakföll af hlátri en ég settist bara niður titrandi og skjálfandi og þakkaði mínum sæla fyrir þetta sterka hjarta.
Um daginn var verið að skipta um ljósadót sem hangir hér á öllum húsum, en rætnar tungur segja að þetta sé vegna þess að bróðir borgarstjórans á stórt rafmagnsfyrirtæki, og voru nokkrir gaurar hangandi utan á 14 hæða húsinu hérna a móti, í einhverskonar kaðli, grönnum mjög. Neðst var kaðlinum brugðið utan um smá spýtu og handhnýtt lauslega og á þessu sátu mennirnir við vinnu sína.
Á þakbrúninni alveg fremst stóð maður og hallaði sér alltaf fram til að fylgjast með þeim við vinnuna og þegar þurfti, ýmist hífði hann eða slakaði þeim upp eða niður. Festingin efst var þannig að bandinu var vafið í tví- eða þrígang utan um handriðisræfil sem á ábyggilega að vera einhv.konar öryggisgirðing, en enginn virðir.
Þegar hann þurfti að hífa og slaka losaði hann einfaldlega bandið og gerði þetta allt með handafli og hnýtti síðan einhverskonar lykkju að verkinu loknu. Mennirnir héngu sallarólegir eg létu sér ekkert bregða. Eins gott að enginn þeirra haldi við konu hífarans og hann komist að því. Eg persónulega fæ bara sting í nárann þegar ég hugsa um þetta. Nóg af svo góðu."
Nú skulum bregða okkur í göngutúr. Að þessu sinni liggurleiðin niður í miðbæinn sem er í kringum höfnina. Þetta er ákaflega skemmtileg gönguleið og margt að sjá. Stór hluti leiðarinnar er í gegnum gamalt hverfi og þar eru litlar verslanir á báða bóga.
"Þessar verslanir eru allar eins og opnir básar út að götunni. Þarna gætir ýmissa grasa og kemur nú upptalning af því helsta, en tekið skal fram að þetta eru allt sérverslanir, hver með sína vöru. Grænmetisbúð, ávaxtabúð og eru þær allmargar. Rusla og flöskumóttökur, þar sem fólk er að flokka ruslið sem er af öllum toga, og þarna er verið að reyna að pranga inn á þig notuðum ljósaperum, gömlum rafmagnssnúrum, notuðum nöglum, spýtnarusli af öllum toga og allskyns öðru góssi. Það sem ekki tekst að selja til baka, er sett í endurvinnslu.
Næst kemur kannski lítill veitingastaður sem selur allskyns dumplings en þeir eru ákaflega vinsælir, nánarst eins og bæjarins bestu hjá okkur, ásamt ormum sem eru seldir í litlum hlaupbollum með mism. sterkum sósum. Þetta er æðislega gott - oftast. Ein búð með plastfötur og bala, önnur með rúmdýnur og þriðja selur handklæði. Næst kemur síðan píulítið skot, þar sem skósmiður gerir við skóna þína meðan þú bíður, tebúð, stimplabúð, sem býr líka til hvers kyns stimpla eftir pöntun. Svo kemur lítil og umkomulaus saumakona sem saumar listavel á eldgömlu fótstignu saumavélina sína ,en tekið skal fram að langflestar saumakonur, og þær eru margar út um allt, nota handsnúnar vélar. Saumavélar af íslenskum standard þekkjast ekki. Þessar saumakonur, sem hafa enga fasta vinnu, sitja oft með vélina sína fyrir utan litla vefnaðarvöruverslun, þú ferð inn, velur efni og hún saumar á staðnum.
Þarna eru alveg endalausar listaverkabúðir, sem selja allskyns myndlist og útskurð, og alveg urmull af listmálarabúðum, sem selja allt sem til þarf til þeirrar iðju. Þarna fást litir af öllum gerðum, sumir stundum orðnir dálítið harðir en penslarnir maður minn, þeir eru af öllum stærðum og gerðum úr ekta hári og kosta, afsakið orðbragðið, skít á spýtu.
Þarna innan um eru alltaf öðru hverju litlir, eigum við að segja syndastaðir, og held ég að það sé oftast einmenningsútgerð. Stúlkurnar eru eins mismunadi og þær eru margar og standa þær oftast í húsasundinu heima hjá sér, sem er alltaf bæði þröngt og skítugt. Raftækja og verkfærabúðir. Búðir sem selja allskyns gúmmíborða, vír og málmplötur. Er nú aðeins fátt upp talið, en fjölbreytnin er ótrúleg.
Þar sem ég var stödd inni í einni litabúðinni og var í óðaönn að skoða, heyrðist í Oddi, hann er nú all aðgangsharður þessi. Ég var eitthvað upptekin af sjálfri mér og fylgdist ekkert með framhaldinu, en sá Odd, svona útundan mér, reyna að losna við karlinn sem lét ekki segjast. Þegar ég hafði lokið erindinu héldum við áfram og karlinn elti. Hamaðist hann nú heldur betur við sölumennskuna, þar sem við vorum orðin tvö. Ég reyndi aftur og aftur að reka hann í burtu, með engum árangri.
Karl var með poka yfir öxlina, og nú spurði ég minn mann Hvað er í fj. pokanum. Slanga, sagði hann, rólegur að vanda. Slanga, át ég upp eftir honum og í því dreif karl upp stóra slöngu og veifaði henni framan í okkur. Upphófst síðan þvílíkur orðaflaumur um ágæti vörunnar, að ég held, - að við vorum bara orðlaus.
Hann hætti ekki þrátt fyrir að ég setti upp svipinn, sem dugar þó oftast og Oddur reyndi margoft að ýta honum burt. Nú var svo komið að ég var farin að hugsa hvar getum við geymt slönguna! - Guð minn góður hugsaði ég allt í einu, er ég orðin vitlaus kaupa slöngu. Það var eins og himnafaðirinn hefði heyrt til mín, því allt í einu gafst karlinn upp og gekk burt, alveg rosalega sorry á svipinn. Sektarkennd, það veit ég ekki, en eitthvað fékk mig til að vorkenna honum alveg ógurlega. En fari það í heitasta, maður getur ekki tekið að sér slöngu, sem gæti jafnvel drepið mann, bara af því einhver verður svona rosalega sorry í framan".
Það er nú það!
frh.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.