19.9.2010 | 06:30
Bara allt í sómanum?
Las á netinu að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir væri sest aftur á þing, eftir að hafa dregið sig í hlé þegar í ljós kom að hún og eiginmaður hennar hefðu líklega notfært sér háa stöðu sína til að efnast umfram venjulegt fólk í landinu, hún sem þingmaður, hann sem háttsettur bankastarfsmaður. Jú jú, hún vill vera á þingi og er komin þangað aftur.
En hvað með okkur hin, hvað finnst okkur? Ég trúi ekki að fólki finnist þetta bara allt í sómanum. Er allt í lagi að þingmaður segist hafa verið glámskyggn, og alveg rosalega sorry yfir svínaríinu, fara að lokum heim og láta sér leiðast í nokkra mánuði, mæta síðan galvösk eins og ekkert sé og halda að allir séu búnir að gleyma öllu? Hvernig er þetta hægt?
Hver ræður þessu, er það drengurinn, þessi myndarlegi, sem á að heita að stjórni Sjálfstæðisflokknum, en virðist bara róa á milli og hafa afskaplega lítið að segja um hlutina sjálfur. Ræður fólk í þesssum flokki algerlega hvernig það hegðar sér, þó á vægast sagt gráu svæði sé, og fyrirgefur sér síðan sjálft, þegar það nennir ekki lengur að sitja heima í sjálfskipuðum skammarkrók, enda aldrei lært að skammast sín?
Mest er ég þó hissa á að það virðist enginn hafa mótmælt þessu, að vísu þekki ég ekki reglur þingsins um sjálfskipaða afturbatapólitíkusa, en eru engar siðferðislegar spurningar í gangi þegar svona gerist? Er virkilega nóg að fara bara heim og vera rosalega sorry og mæta síðan, eins og þruma þur heiðskíru lofti, til vinnu á sjálfu alþingi Íslendinga, eftir að hafa skitið í nitina sína?
Þetta er farið að minna mig illilega á ítölsk stjórnmál, þar sem spillingin er búin að vera svo mikil, svo lengi, að það tekur enginn eftir henni lengur. Er þetta nokkuð að breytast til batnaðar hjá okkur?
Mér sýnist sama liðið sitja við kjötkatlana, á fullu við að éta restina af gullkálfinum, sem ekki er hægt að dansa í kringum lengur, eftir að hann lognaðist út af. Líklega með vonarglampa í augum um að hann hafi skilið eftir sig eitthvert afsprengi sem dansa má umhverfis á ný, þegar búið er að mergsjúga beinin, og þá er eins gott að vera mögulega til staðar, en sitja ekki heima í fýlu út í sjálfan sig þegar ballið byrjar.
Það minnist enginn á frjálshyggjuna, sem Davíð lofaði svo mjög um árið, lengur, enda var hún bara ávísun á spillingu og kynti undir græðgina svo um munaði. Nei takk, enga misheiðarlega stjórnmálamenn eða hrokagikki inn á alþingi okkar landsmanna allra. Eigum við ekki að standa vörð um það, vakandi, svo við getur verið stolt af óspilltu stjórnarfari?
Athugasemdir
Mikið er þetta rétt hjá þér Bergljót. "allt í sómanum" Nei aldeilis ekki; kellingin og hrokagikkurinn hún Þorgerður verður að hverfa úr sölum alþingis hvað sem raular og tautar, best væri samt ef hún færi að fatta þetta sjálf..
Kristinn Jónsson (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 11:40
Hver gæti stigið aftur inna þing eftir allt sem þau hafa gert almenningi á íslandi? og hugsandi hluti þessara þjóðar vill þau út úr okkar landi, verður að vera eitthvað tilfinninga og siðlaust hyski sem hún hefur sannað að hún sé!
Hún og þau hafa tekið stöðu með ranglætinu og leyfum þeim bara að reyna að ljúga og blekkja. þau verða látin axla sína ábyrgð sama hvort það verður inní dómsal og fangelsum eða í dómsal Alheimsins. þau eiga i höggi við hluti sem þau vita ekki að er til,
Þetta er kjarkurinn í þessu liði, geta ekki að viðurkennt það sem þau hafa gert þó að allir viti hvað og hvernig þau gerðu þetta.
Hún getur logið að sjálfum sér enn hún lýgur ekki að okkur lengur.
ég hef stungið uppá þessu áður,láta hana og aðra borga íslenskum almenningi þá peninga sem hún hefur þegið í laun til baka, henda þeim og svo mörgum samsekum óþokkum útúr landi og banna þeim inngöngu aftur! sem er betra enn að hausar fjúki sem væri gert hjá öðrum þjóðum við svona brotum.
Gunnar (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.